Hálfleikur á Ólympíuskákmótinu í Tromsø: Hvernig standa Íslendingarnir sig?

4

Gamlir vopnabræður. Helgi Ólafsson og Jón L. Árnason voru í þeim íslensku landsliðum sem hafa náð bestum árangri. Reynsla þeirra vegur þungt í Noregi.

Nú er lokið fimm umferðum af ellefu á Ólympíuskákmótinu í Tromsø. Keppendur fengu frí á fimmtudag, og framundan eru sex æsispennandi umferðir. Íslendingar eru í 45. sæti en alls taka rúmlega 170 skáksveitir þátt í 41. Ólympíuskákmótinu og hafa aldrei verið fleiri. Kvennasveit Íslands er í 51. sæti af rúmlega 130. Hvernig hefur okkar fólk verið að standa sig? Rýnum aðeins í fyrri hálfleik í Tromsø.

Áður en lengra er haldið skulum við samt skoða stöðuna í keppninni um Gaprindashvili-verðlaunin. Þau eru kennd við goðsögnina Nonu  Gaprindashvili, sem var heimsmeistari kvenna 1962-78, og tók þátt í fyrsta Reykjavíkurmótinu í skák, 1964, þar sem Mikail Tal fór með himinskautum. En verðlaun  Gaprindashvili eru veitt þeirri þjóð sem fær flesta vinninga samtals í opna flokknum og kvennaflokknum.

Kína, Ungverjaland, Rússland og Serbía eru efst í þessari keppni eftir 5 umferðir. Kínversku liðin hafa samtals 18 stig af 20 mögulegum (kvennaliðið er með fullt hús) og vígasveitir þeirra hafa náð 32 vinningum af 40 mögulegum. Komum að stöðu Íslands á eftir.

8

Þröstur Þórhallsson hefur skilað sínu. Hér ásamt Ivan Sokolov.

Við vorum að tala um frammistöðu Íslands. Byrjum á landsliði okkar í opnum flokki á 41. ólympíuskákmótinu:

Íslenska liðið skipa Hannes H. Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, Þröstur Þórhallsson og Helgi Ólafsson. Landsliðseinvaldur er stórmeistarinn Jón L. Árnason, sem tók við liðinu af Helga Ólafssyni nú í vor.

Íslenska liðið hefur sigrað Eþíópíu, Írland og skáksveit Alþjóðasambands blindra og sjónskertra, en tapað fyrir Serbíu og Svíþjóð.

Eftir fimm umferðir hafa liðsmenn Íslands í opnum flokki teflt samtals 20 skákir. Okkar menn hafa unnið 10, gert 8 jafntefli og aðeins tapað 2. Allir í landsliðshópnum hafa teflt 4 skákir af 5.

Hannes Hlífar Stefánsson (fæddur 1972) dregur vagninn, eins og svo oft áður. Hann tefldi fyrst á 30. Ólympíuskákmótinu í Manilla á Filippseyjum árið 1992, og hefur verið fastamaður síðan.

Hannes (2536 stig) hefur skilað sínu vel á 1. borði, gert jafntefli við stórmeistarana Baburin (2502), Ivanisevic (2613) og Grandelius (2571) og sigrað alþjóðameistarann Dukaczewski. Árangur Hannesar jafngildir 2589 stigum.

DSC_1404

Hjörvar Steinn hefur farið á kostum. Árangur upp á 2614 stig.

Hjörvar Steinn (2543)  er í fínu formi á 2. borði. Hann gerði jafntefli við stórmeistarana Perunovic (2602) og Agrest (2595), og sigraði í 2 skákum gegn stigalægri mönnum. Árangur Hjörvars Steins jafngildir 2614 stigum. Hjörvar er Íslands bjartasta von, og hann virðist nú vera að taka nýjan og öflugan vaxtarkipp sem skákmaður.

Guðmundur Kjartansson (2448) tefldi sig inn í landsliðið með fræknum sigri á Íslandsmótinu í skák nú í vor. Árangur hans til þessa er alveg viðunandi, þótt hann eigi enn eftir að sýna klærnar. Guðmundur hefur sigrað tvo talsvert stigalægri menn, gert jafntefli við mjög stigaháan alþjóðameistara og tapað fyrir sænska stórmeistaranum Tiger Hillarp Persson. Árangur Guðmundar jafngildir 2419 skákstigum.

Þröstur Þórhallsson (2426) var nokkuð óvænt valinn í landsliðið, á kostnað stigahærri stórmeistara á borð við Henrik Danielsen og Héðin Steingrímsson. Þröstur keppti fyrst fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótinu í Grikklandi 1988 og á að baki farsælan feril með landsliðinu.

Þröstur hefur staðið sig með sóma í Tromsø. Hann hefur sigrað einn alþjóðameistara og tvo FIDE-meistara, en tapaði fyrir serbneska stórmeistaranum Nikola Sedlak (2554). Árangur Þrastar jafngildir 2563 stigum.

DSC_1357Og þá er komið að ,,varamanninum“.

Helgi Ólafsson (2555) er goðsögnin í þessum hópi. Hann var fyrst með á 22. Ólympíuskákmótinu í Haifa í Ísrael árið 1976. Helgi hefur teflt á 15(!) ólympíuskákmótum og verið liðsstjóri og þjálfari tvisvar.

Helgi er sannkallaður super-sub, því hann er stigahæstur allra í landsliðshópnum. Og þessi listfengi snillingur hefur ekki stigið feilspor á taflborðinu í Tromsø. Helgi sigraði stigalausan skákmann frá Eþíópíu í fyrstu umferð, lagði síðan írskan alþjóðameistara og gerði jafntefli við stórmeistarana Indjic (2539) frá Serbíu og Tikkanen (2559) frá Svíþjóð.

Allir íslensku landsliðsmennirnir eru í plús í stigakladdanum. Þröstur hefur náð í 7 skákstig og Hjörvar Steinn 5. Alls hefur íslenska landsliðið nælt í næstum 20 skákstig í fyrstu umferðunum 5 í Tromsø.

Niðurstaðan? Jú, skák-strákarnir okkar standa undir væntingum, og rúmlega það. Engu virðist að kvíða um seinni hlutann, og aldrei að vita nema raunveruleg stjörnutilþrif sjáist til liðsmanna Íslands…

5

Lenka og Tinna Kristín hafa alveg ástæðu til að brosa eftir fyrri hlutann. Kvennaliðið stendur sig ágætlega.

Í kvennaflokknum er staðan nokkurn veginn í samræmi við væntingar.

Íslenska liðið skipa Lenka Ptacnikova, Hallgerður Þorsteinsdóttir, Tinna Kristín Finnbogadóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir. Landsliðseinvaldur er Ingvar Þór Jóhannesson.

Liðið er í 51. sæti af rúmlega 130.

Þrír sigrar, tvö töp, samasem 6 stig.

Lenka (2273) er langfremsta skákkona Íslendinga. Hún er búin að hala inn 2,5 vinning í 4 skákum á efsta borði og frammistaða hennar jafngildir 2274 stigum — sem er nákvæmlega á pari.

Hallgerður (1982) hefur teflt allar skákirnar og náð í 3 vinninga af 5. Hún hefur sigrað tvisvar, gert tvö jafntefli og aðeins tapað einni skák. Árangur hennar jafngildir 1914 skákstigum.

Tinna Kristín (1915) er með besta vinningshlutfallið, 3 vinninga í 4 skákum, enda hefur hún nælt sér í 17 skákstig. Árangur hennar jafngildir 1964 stigum.

Jóhanna Björg (1862) hefur átt í nokkrum mótvindi og hefur 1 vinning eftir 4 skákir. Í tveimur tilvikum tapaði hún fyrir mun stigahærri andstæðingum.  Árangur hennar jafngildir 1662 stigum.

Nona_Gaprindashvili_1975

Nona Gaprindashvili. Fædd 1941, sjötti heimsmeistari kvenna. Tefldi á fyrsta Reykjavíkurmótinu 1964.

Elsa María (1839) hefur náð í 2 vinninga í 3 skákum, og jafngildir frammistaða hennar 1621 stigi.

Niðurstaðan er því sú að fjórar af fimm landsliðskonum eru í plús — hafa unnið fleiri skákir en þær hafa tapað. Alls hefur liðið unnið 10 skákir, tapað 7 og aðeins gert 3 jafntefli í þessum 20 fyrstu skákum.

Og þá er aðeins eftir spurningin: Hvernig stöndum við að vígi í baráttunni um bikar  Gaprindashvili? Jú, þar erum við í 52. sæti. Liðin okkar hafa 12 stig samtals af 20 mögulegum. Liðsmenn Íslands í opnum flokki og kvennaflokki hafa náð í 25,5 vinning í 40 skákum.

Hreint ekki slæmur fyrri hálfleikur sem sagt. Reynslubanki Jóns L. Árnasonar og Helga Ólafssonar gæti reynst okkur drjúgur í seinni hálfleik — og ungu mennirnir gætu tekið flugið…

 

Sjá nánar:

 

Facebook athugasemdir