Gullaldarliðið sigraði í 2. umferð — England og Þýskaland með fullt hús

Gullaldarlið Íslands sigraði þýska liðið SV Eiche Reichenbrand í 2. umferð HM skákliða 50 ára og eldri með 3 vinningum gegn 1. Þjóðverjarnir skörtuðu engum titilhafa og voru mun stigalægri á öllum borðum, og mega því vera alsælir með frammistöðuna gegn íslensku stórmeistarasveitinni.

Helgi Ólafsson gerði jafntefli á efsta borði gegn Jürgen Kyas (2190 stig) og hið sama gerði Friðrik Ólafsson á 4. borði gegn Ulrich Koetzsch. Margeir Pétursson og Jón L. Árnason unnu sannfærandi í laglegum skákum.

HM-Dortmund-2016_Margeir-Petursson_Fehlhammer

Margeir (með hvítt) lék 18. f4 sem Fehlhammer svaraði með 18..Bxh3?

 

HM-Dortmund-2016_Doering-Jon_L

H. U. Doering (með hvítt) hrasaði um skóreimarnar í vörninni þegar hann lék 20. Dd1 og fékk umsvifalaust á sig mark. Doering 0 – Jón L. 1

Hinn 61 árs gamli Kyas blés ódeigur til sóknar gegn Helga Ólafssyni, og hafði samkvæmt skákforritum mun betri stöðu þegar sverð voru slíðruð eftir 18 leiki. Þegar þarna var komið sögu hótaði Þjóðverjinn máti og bauð jafntefli!

Englendingar og Þjóðverjar eru efstir með fullt hús, 8 vinninga, eftir tvær umferðir, en Gullaldarliðið er í 4. sæti ásamt fleirum.

Í 3. umferð teflir Gullaldarliðið við þýska félagið Thüringen, sem meðal annars státar af tveimur stórmeisturum. Lið Thüringen leiðir Peter Enders (2448) sem varð þýskur meistari 1994, en varamaður þeirra er hinn 67 ára gamli Lutz Espig, sem er einn stigalægsti stórmeistari heims með 2263 stig. Hann hefur unnið ýmsa góða sigra og varð meðal annars skákmeistari Austur-Þýskalands í þrígang.

Skákir 2. umferðar

Facebook athugasemdir