Gullaldarliðið aftur á beinu brautina — stórleikur við England á sunnudag og stefnan sett á verðlaunasæti

round-6_Germany-IcelandGullaldarliðið er aftur komið á beinu brautina á HM skáksveita 50 ára og eldri, eftir mjög slysalegt tap gegn Þjóðverjum í 6. umferð þar sem heilladísirnar snerust svo sannarlega gegn okkar mönnum. Í 7. umferð á laugardag gjörsigruðu okkar menn úkraínsku skáksveit frá Obuchiw með þremur og hálfum vinningi gegn hálfum.

Þegar tvær umferðir eru eftir er ljóst að íslenska stórmeistarasveitin mun ekki landa heimsmeistaratitli, en stefnan er sett á verðlaunasæti. Gullaldarliðið mætir sterkri sveit Englendinga í 8. umferð á sunnudag.

round-6_Germany-Iceland_1Andstæðingar Gullaldarliðsins í 7. umferð hafa verið kallaðir ,,heimsmeistarar kaffihúsanna“ að sögn Halldórs Grétars Einarssonar liðstjóra. Obuchiw er 30 þúsund manna bær skammt frá Kænugarði og í liði þeirra í dag voru þrír alþjóðlegir meistarar og einn FIDE-meistari.
Halldór sagði að íslenska liðið hefði verið staðráðið í að bæta fyrir ófarir gærdagsins, og að vanmat hafi ekki komið til greina:,,Þetta eru orginal kallar sem tefla engar teoríur, hefur aldrei verið kennt neitt og hafa trúlega aldrei opnað skákbók. En þeir eru öflugir, einsog stigatala þeirra gefur til kynna.“

IMG_2080 (1)

„Við mættum í morgunmat kl 8. Það var þröngt á þingi, en Auður og Friðrik fundu sæti hjá hæglátum eldri manni. Eftir að við Íslendingarnir höfðum spjallað í smá tíma, þá spyr borðfélagi okkar að því hvort Olafsson sé með okkur. Friðrik sem sat við hliðina á honum játti því og sagðist einmitt vera Olafsson. Þá brosti sá hægláti og sagðist hafa teflt við hann í Birmingham árið 1951 og hann héti Willy Rosen. Hann hefði samt búist við mun eldri manni! Friðrik þakkaði honum hrósið og þeir spjölluðu mikið saman á þýsku sem bæði Friðrik og Auður töluðu reiprennandi. Mótið í Birmingham var fyrsta heimsmeistaramót unglinga. Friðrik var 15 ára þá og Willy tveim árum eldri og tefldi fyrir Þýslaland. Ivkov sem þá var 19 ára og stórmeistari vann mótið. Á þessu móti hitti Friðrik Bent Larsen í fyrsta skipti.“ HGE

Friðrik Ólafsson kom nú inn í liðið aftur, í stað Jóns L. Árnasonar, og hann gerði jafntefli með svörtu á 4. borði. Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson og Margeir Pétursson unnu allir örugga sigra og íslenska liðið er nú í 6.-7. sæti með 10 stig. Þjóðverjar eru einir á toppnum með 13 stig, en Armenar og þýska skákfélagið Emanuel Lasker Gesellschaft eru í 2.-3. sæti með 12 stig.

Íslendingar mæta Englendingum á morgun, en þeir tefla fram stórmeisturum á öllum borðum og eru næststigahæsta sveit mótsins á eftir Gullaldarliðinu. Halldór segir að ekkert nema sigur komi til greina gegn Englendingum:

,,Stemmningin er allt önnur en í gær og menn alveg tilbúnir að mæta Englendingum. Það er dálítið pínlegt að viðureign tveggja stigahæstu liðanna skuli vera í beinni útsendingu en við — og þeir — getum sjálfum okkur um kennt. Með sigri komum við okkur í mjög vænlega stöðu til að vinna til verðlauna á mótinu, því við höfum þá teflt við allar toppsveitirnar. Og það eru einu úrslitin sem koma til greina.

13588937_1017463711694696_554947098_o

Margeir Pétursson

Halldór segir að árangur Margeirs Péturssonar standi upp úr hjá íslenska liðinu, en hann hefur rakað saman fimm vinningum í sex skákum og jafngildir árangur hans 2637 skákstigum. Með þessu áframhaldi vinnur Margeir sér rétt til að fara á vegum SÍ á næsta EM einstaklinga, en til þess þarf árangur upp á 2670 stig.

Facebook athugasemdir