Gullaldarlið Íslands keppir á HM skáksveita!

Skáksamband Íslands sendir vaska sveit á HM skáksveita, 50 ára og eldri, sem fram fer í Dresden í Þýskalandi 26. júní til 4. júlí. Sveitin er skipuð Gullaldarliði Íslands í skák: Jóhanni Hjartarsyni, Helga Ólafssyni, Margeiri Péturssyni, Jóni L. Árnasyni og Friðriki Ólafssyni. Meðaldur er 61 ár og liðsstjóri er Halldór Grétar Einarsson.

Um 60 skáksveitir eru skráðar til leiks og er íslenska sveitin sú stigahæsta á mótinu og stefnir vitaskuld að sigri.

Keppnin verður hinsvegar án nokkurs vafa mjög skemmtileg og spennandi enda margir snjallir meistarar í öðrum liðum.

Jóhann Hjartarson

Jóhann Hjartarson

Jóhann Hjartarson (2547 skákstig) leiðir sveitina, enda vann hann á dögunum glæsilegan sigur á Íslandsmótinu í skák, þar sem hann var aldursforseti keppenda. Jóhann varð fyrst Íslandsmeistari aðeins 17 ára gamall 1980 og hefur hampað titlinum sex sinnum.

Helgi Ólafsson

Helgi Ólafsson

Helgi Ólafsson (2543 stig) skipar 2. borð. Helgi, sem fæddur er 1956, varð þriðji stórmeistari Íslendinga 1984 og hefur sex sinnum hampað Íslandsmeistaratitlinum. Hann hefur auk þess þjálfað landslið okkar og verið skólastjóri Skákskóla Íslands um árabil.

Margeir Pétursson

Margeir Pétursson

Margeir Pétursson (2509 stig) fæddist 1960 og hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari. Hann varð alþjóðlegur meistari 18 ára, og stórmeistari 26 ára. Margeir hefur, líkt og aðrir liðsmenn sveitarinnar, margoft keppt fyrir Íslands hönd.

Jón L Árnason

Jón L Árnason

Jón L. Árnason (2490 stig) vann hug og hjörtu Íslendinga þegar hann varð heimsmeistari unglinga árið 1977. Hann varð síðan stórmeistari í framhaldinu, eins og félagar hans í fjórmenningaklíkunni, og Íslandsmeistari í þrígang.

Friðrik Ólafsson

Friðrik Ólafsson

Goðsögnin Friðrik Ólafsson (2377) er aldursforseti íslenska liðsins . Hann fæddist 1935 og varð 81 árs í janúar. Hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1952 og bar um árabil höfuð og herðar yfir aðra íslenska skákmenn, enda komst hann í fremstu röð í heiminum. Enginn Íslendingur hefur unnið jafnmargar skákir gegn þeim sem borið hafa heimsmeistaratitilinn. Friðrik var forseti FIDE, alþjóða skáksambandsins 1978-82, og nýtur mikillar virðingar í skákheiminum.

Hið reynslumikla íslenska lið mætir á heimsmeistaramótið í Dresden með leikgleðina að leiðarljósi, en jafnframt er ljóst að íslenskir skákáhugamenn binda miklar vonir við góðan árangur Gullaldarliðsins okkar.

Facebook athugasemdir