,,Guð er til — og hann er ekki Búlgari!“

Enski snillingurinn Nigel Short, sem helgina 21.-22. maí glímir við Hjörvar Stein Grétarsson í MótX-einvíginu í Kópavogi, er einn litríkasti meistari skáksögunnar. Hann liggur aldrei á skoðunum sínum, og hirðir lítt um þótt þær falli ekki í kramið hjá öllum. Greinar hans í New in Chess, virtasta skáktímariti heims, eru hreinasta hnossgæti sem vert er að mæla með.

Short er yfirlýstur trúleysingi en á það samt til að ákalla máttarvöldin, þegar mikið liggur við. Árið 2008 keppti Short í afar sterkum B-flokki Corus-skákmótsins í Hollandi. Honum gekk prýðilega á mótinu og var í grennd við toppinn þegar komið var fram í 8. umferð. Þar var andstæðingur hans búlgarski stórmeistarinn Ivan Cheparinov, liðlega tvítugur og þótti mjög efnilegur.

Short kom að skákborðinu og rétti andstæðingi sínum höndina, einsog vera ber við upphaf skákar, en ungi Búlgarinn virti hann ekki viðlits. Enska meistaranum var sýnilega brugðið, hann settist niður og útfyllti skorblaðið sitt og rétti aftur fram höndina. En það var sama sagan: Engin viðbrögð.

Við svo búið stóð Short á fætur og kallaði til skákdómara. Hann vísaði í nýlegar reglur FIDE um að skákmanni bæri að taka í útrétta hönd andstæðings við upphaf skákar, annað jafngilti tafarlausu tapi. Eftir dálitla rekistefnu var það niðurstaða dómaranna — Short var dæmdur sigur, og hann var sposkur og ráðvilltur í senn þegar hann sagði í viðtali að þarna hefði hann unnið stystu skák sem hann hefði nokkru sinni teflt. Hann sagði jafnframt að um hefði verið að ræða ,,úthugsaða móðgun“ af hálfu Cheparinovs.

Cheparinov neitar að taka í höndina á Short

Skýringin á óíþróttamannslegri hegðun unga meistarans voru ummæli sem Short hafði látið falla um Topalov, fremsta skákmann Búlgara, eftir heimsmeistaraeinvígi Topalovs við Kramnik. Þar fór allt í hund og kött, sem kunnugt er, og Búlgararnir komu meðal annars með fáránlegar ásakanir um að Kramnik notaði klósettferðir til að laumast í tölvu.

Short, líkt og flestir aðrir, var hneykslaður á framgöngu Topalovs og umboðsmannsins Silvio Danailov, en sá síðarnefndi hefur yfirbragð skuggabaldurs meðan Topalov kemur fyrir einsog frekar einföld sál, þrátt fyrir augljósa snilligáfu.

Short býr sig undir að kenna Cheparinov mannasiði.

Short býr sig undir að kenna Cheparinov mannasiði.

Danailov var staddur á skákmótinu, enda Topalov að keppa í A-flokki rétt einsog erkifjandinn Kramnik. Búlgararnir kröfðust þess að ákvörðun dómaranna um tap Cheparinovs yrði afturkölluð og það varð að lokum niðurstaðan; með því skilyrði að Cheparinov bæðist afsökunar og tæki í höndina á Short þegar skák þeirra yrði tefld daginn eftir.

Short varð — vægast sagt — bálillur þegar honum var sagt að hann yrði þrátt fyrir allt að tefla við ókurteisa unga Búlgarann og hótaði að pakka saman og hætta í mótinu. Vinir hans og fjölskylda hvöttu hann hins vegar til að tefla skákina og eftir að sofið á málinu mætti Short til leiks, 10 mínútum of seint, með morðglampa í augum.

Enski meistarinn tók með semingi í þvala hönd unga mannsins, settist svo niður og sveiflaði fram hvíta kóngspeðinu. Og einsog í öllum góðum ævintýrum sigraði réttlætið að lokum — eftir 72 leiki gafst Cheparinov upp en sigurreifur Short tilkynnti fréttamönnum:

,,Guð er til — og hann er ekki Búlgari!“

Viðtal við Short

Skákin

Facebook athugasemdir