Gríðarlega óvænt tap Caruana

Eftir hreint ótrúlega sigurgöngu þar sem 27 kappskákir fóru fram án þess að Fabiano Caruana fengi svo mikið sem skráveifu í átökunum kom loks að því að Ítalinn knái lá í valnum.

Sjöunda umferð Grand Prix mótsins í Baku fór fram í dag og það kom í hlut Rússans Dmitry Andreikins að leggja Caruana að velli. Má segja að þetta hafi verið mjög óvænt þar sem Andreikin hafði fram að þessu átt mjög slæmt mót og tapað þrem skákum og gert þrjú jafntefli. Við ætlum ekki að líkja þessu við mörg af óvæntustu úrslitum íþróttasögunnar en okkur dettur í hug Buster Douglas á móti Mike Tyson miðað við gang mála undanfarið!

Caruana_SmilesCaruana beitti Skandinavískri vörn og reyndi að finna sinn „innri Magnús“ en varð ekki kápan úr því klæðinu að þessu sinni. Ef til vill hefur Caruana ofmetnast eftir góðan árangur undanfarið og hélt eins og Magnús að hann gæti teflt nánast hvað sem er. Segja má að hann hafi brugðið of mikið út af sínum eigin vana með byrjanataflmennskunni í dag og það kostaði hann að þessu sinni.

Andreikin er engin aukvisi og komst alla leið í úrslit á síðasta World Cup sem tryggði honum sæti á síðasta Áskorendamóti. Engu að síður miðað við elóstig og árangur undanfarið koma þessi úrslit mönnum allt að því í opna skjöldu miðað við þróun mála síðustu mánuði.

Caruana missir því aðeins flugið í baráttu sinni við að ná Carlsen að stigum og verður fróðlegt að sjá hvernig hann bregst við tapinu. Magnus Carlsen hefur verið þekktur fyrir það að koma sterkur til baka eftir töp og nú er að sjá hvernig Caruana bregst við. Að mati ritstjórnar virðist Caruana ávallt vera í góðu andlegu jafnvægi og að okkar mati mun hann koma til baka eins og ekkert hafi í skorist. Fjórar umferðir eru enn eftir og Caruana þarf að berajst við Gelfand um sigur í mótinu!

Facebook athugasemdir