Grænlandsmót í Vin á mánudaginn: Allir velkomnir!

DSC_1003Vinaskákfélagið og Hrókurinn halda hraðskákmót í Vin, Hverfisgötu 47, mánudaginn 30. mars klukkan 13. Mótið er haldið í tilefni af páskaferð Hróksmanna til Ittoqqortoormiit, þar sem mikil hátíð verður haldin fyrir börn og ungmenni í afskekktasta þorpi Grænlands.

Á Grænlandsmótinu í Vin á mánudaginn verða tefldar sex umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma. Skákmenn á skólaaldri eru sérstaklega boðnir velkomnir á mótið, enda komnir í frí og verða páskaegg í verðlaun fyrir þá keppendur 16 ára og yngri sem bestum árangri ná.

Vinaskákfélagið stendur fyrir vikulegum æfingum í Vin á mánudögum, en þar er teflt alla daga og reglulega slegið upp stórmótum. Félagið var stofnað að frumkvæði Hróksmanna sumarið 2003, um svipað leyti og skáklandnám Hróksins á Grænlandi hófst.

20Heiðursgestur á Grænlandsmóti Hróksins og Vinaskákfélagsins á mánudaginn er Kristín Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins. Kristín var nýlega kjörin formaður Reykjavíkurdeildar Rauða krossins sem annast rekstur Vinjar.

Allir eru hjartanlega velkomnir á Grænlandsmótið í Vin. Þátttaka er að venju ókeypis og boðið verður upp á ljúffengar veitingar.

 

Facebook athugasemdir