Gleðinnar dagur í Upernavik.

Kæru vinir. Í dag heimsóttum við Hróksmenn í Upernavik vöggustofuna, leikskólann, grunnskólann og félagsmiðstöð ungmenna. Allsstaðar sama sagan — gleði og undursamlegar móttökur.

Ingibjörg Gisladottir, kjarnakonan sem átti frumkvæði að þessari ævintýralegu ferð, fór á vöggustofuna með handprjón og hannyrðir frá íslenskum vinum. Við Jósep Gíslason, minn stórkostlegi og fjölhæfi ferðafélagi, fórum á meðan í heimsókn í leikskólann þar sem 60 kát börn fengu jóladagatal og fleiri gjafir. Lífsglaðari stubba hef ég sjaldan hitt.

Þaðan lá leiðin í grunnskólann, þar sem skákkverinu góða á grænlensku, sem Siguringi Sigurjónsson stendur að, var dreift ásamt góðgæti frá vinum okkar í Nóa-Síríus. Mörg af börnunum hafa tekið þátt í hátíðahöldunum undanfarna daga, svo við áttum mörgum vinum að fagna. Við þetta tækifæri fékk grunnskólinn fjölda taflsetta að gjöf, kennsluefni og sitthvað fleira.

Úr grunnskólanum fórum við í félagsmiðstöð barna og unglinga — en þar vorum við líka gestir á laugardaginn — þar sem við skildum eftir fjölmargar gjafir frá íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum. Forstöðukonan sagði okkur að börnin og ungmennin töluðu nú um fátt annað en skák, og gleðin skein úr hverju andliti.

Það voru þreyttir en ólýsanlega glaðir liðsmenn Hróksins sem enduðu daginn í kaupfélaginu til að undirbúa hátíðarkvöldverð fyrir okkar helstu liðsmenn og hjálparhellur hér á 73. breiddargráðu.

Eitt er víst: Börnin í ,,gleymda bænum á Grænlandi“ eru kát og glöð og héðan förum við á morgun með gnótt dýrmætra minninga. Og við munum aldrei gleyma Upernavik — hingað skal stefnan sett strax á næsta ári.

Krakkarnir hér hafa sett sér það takmark að sigra Tulugaq (sem þýðir hrafn á grænlensku) og fátt skal verða mér kærara en tapa fyrir ungu snillingunum frá Upernavik í framtíðinni.

Takk, þið öll, sem stutt hafa við bakið á okkur til að gera stórkostlega hátíð gleði og vináttu að veruleika.

 

 

.


Created with flickr slideshow.

Facebook athugasemdir