Sigursveitin á jólaskákmótinu. Róbert, Hörður, Þórólfur og Hjálmar Hrafn.

Gleðin ríkti á jólaskákmótinu á Kleppi

Einbeiting.

Gleðin sveif yfir vötnum og taflborðum á árlegu jólaskákmóti Hróksins og Vinaskákfélagsins á Kleppi nú í vikunni. Þar leiddu saman hesta sína skáksveitir geðdeilda, búsetukjarna og sambýla. Úrslit voru aukaatriði en það var skáksveitin Vin Z sem stóð uppi sigurvegari. Sigursveitin var skipuð liðsmönnum frá Vin og Bríetartúni. Næst kom sveit Geysis og Vin X hreppti bronsið. Alls voru keppendur á mótinu um 20.

Jólaskákmót Hróksins og Vinaskákfélagsins á sér langa sögu og er einn af hápunktum starfsársins hjá þessum skákfélögum, sem bæði leggja mikið upp úr því að efla skáklíf meðal fólks með geðraskanir. Vinaskákfélagið er með vikulegar skákæfingar á heimavelli sínum, Vin — fræðslu- og batasetri, Hverfisgötu 47, og þar er teflt flesta daga, og eru allir hjartanlega velkomnir.

Hrafn Jökulsson forseti Hróksins með heiðursgesti mótsins, Henný Níelssen.

Heiðursgestur á jólaskákmótinu var Henný Níelssen, sem undanfarin misseri hefur í sjálfboðavinnu stýrt fatasöfnun Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi. Ísspor lagði til verðlaunagripi, Bónus veitingarnar og bókaforlögin Benedikt, Sögur og Skrudda gáfu vinninga.

Facebook athugasemdir