Sigurvegarar og Hróksliðar á Meistaramóti Air Iceland Connect i Nuuk 2017.

Gleðin og vináttan allsráðandi á Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk

Hrafn Jökulsson og Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri FÍ undirrita samtarfssamning að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og fulltrúm Hróksins.

Skákfélagið Hrókurinn hefur síðustu vikuna staðið fyrir Air Iceland Connect-hátíð í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Ellefu Hróksmenn héldu til Nuuk á mánudag, eftir að Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri AIC undirrituðu samstarfssamning að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. AIC hefur frá upphafi verið helsti bakhjarl Hróksins við að útbreiða skák, samvinnu og vináttu milli grannþjóðanna í norðri. Hrókurinn hélt fyrsta skákmótið í sögu Grænlands 2003 og hefur síðan farið um 60 sinnum með skákveislu í farangrinum.

Hróksliðar heimsóttu í vikunni tvo grunnskóla í Nuuk og færðu 1. bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf frá Hróknum, Eimskip og Kiwanis. Börnin í skólunum tveimur, Atuarfik Samuel Kleinschmidt og Kangillinnguit Atuarfiat, tóku gjöfunum fagnandi og launuðu fyrir sig með undurfögrum söng. Liðsmenn skákfélagsins í Nuuk munu á næstu dögum heimsækja aðra grunnskóla og færa 1. bekkingum hjálma. Alls fá um 240 sex ára börn í Nuuk hjálma að gjöf.

Gleðistund með gömlum og góðum vinum í athvarfi í Nuuk.

Hrókurinn heimsótti Kofoeds Skole sem er fyrir heimilislausa og einstæðinga í Nuuk. Forstöðumaður heimilisins er Guðmundur Þorsteinsson sem ásamt eiginkonu sinni, Benedikte Abelson, hefur í áratugi unnið að auknum samskiptum Íslands og Grænalnds. Hrókurinn færði gestum athvarfsins gnótt af nýjum íþróttafötum og skóm frá Intersport, Ellingsen, HENSON og Jóa útherja.

Næst lá leiðin á Pitu-heimilið sem er fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum. Pitu-heimilið hefur þá sérstöðu að taka við systkinahópum og er mjög vel um börnin hugsað. Nú dvelja 16 börn á heimilinu í Nuuk og þau fengu öll gjafir, m.a. frá IKEA, Intersport, Nóa Síríus og prjónahópi Gerðubergs.

Á þriðjudagsmorgun heimsóttu Hróksliðar Sukuisaarfik Værested, sem er athvar sem opið er frá 8-16, og er sérstaklega ætlað að rjúfa félagslega einangrun og auka lífsgæði gesta. Hróksmenn heimsækja þetta athvarf jafnan með góðar gjafir þegar leiðin liggur til Nuuk.

Róbert Lagerman varaforseti Hróksins teflir fjöltefli í Nuuk Center.

Róbert Lagerman skákmeistari og varaforseti Hróksins tefldi fjöltefli í Nuuk Center, verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar, á miðvikudag og alls spreyttu sig um 40 gegn Róberti. Þrír náðu jafntefli, m.a. hin 14 ára Jokiba Napatoq frá Ittoqqortoormitt, afskekktasta þorpi Grænlands.

Á miðvikudag var komið að Air Iceland Connect-meistaramótinu, sem líka var haldið í Nuuk Center, í samvinnu við skákfélag heimamanna. Kornungur grænlenskur skákmaður, Mikael Mikiiki, sigraði með glæsibrag, hlaut 6,5 vinning af 7 mögulegum. Mikael gerði aðeins eitt jafntefli, við Róbert Lagermann, en sigraði í öllum öðrum skákum. Hann hlaut vegleg verðlaun og Hróksliðar tilkynntu í mótslok að Mikael yrði boðið til Íslands í skákþjálfun.

Auk skákviðburða áttu Hróksmenn mjög gagnlega fundi með embættismönnum og stjórnmálamönnum, enda mikill áhugi á Grænlandi að gera skák að kennslugrein í grunnskólum landsins.

1. bekkingar í Atuarfik Samuel Kleinschmidt-skólanum með hjálma frá Hróknum, Eimskip og Kiwanis.

Hátíðin í heild heppnaðist með miklum ágætum, og Hróksliðar nutu ómetanlegrar aðstoðar Péturs Ásgeirssonar sendiherra, sem er ræðismaður Íslands í Nuuk. Að auki studdi Reykjavíkburobrg hátíðina fjárhagslega, enda vinaborg Nuuk og fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar gáfu gjafir og vinninga.

Hinn ungi Mikael gerði jafntefli við Róbert á Air Iceland Connect meistaramótinu í Nuuk, og varð efstur með 6,5 vinning af 7. Mikill efnispiltur.

Air Iceland Connect-verkefni Hróksins var þriðja verkefni félagsins á Grænlandi á árinu. Í febrúar var haldin Polar Pelagic-skákhátíð í Kulusuk og Tasiilaq og um páskana lá leiðin að vanda til Ittoqqortoormitt, en þangað hafa Hróksliðar farið alla páska síðustu 11 árin.

Hrókurinn mun á næstu mánuðum heimsækja marga staði á Grænlandi, m.a. Kangerlussuaq, Ilulisat, Nanortaliq, Narsaq og Qaqortoq. Hróksliðar þakka af öllu hjarta þeim sem styðja starfið á Grænlandi og hlakka til að halda áfram að þróa skáklíf á Grænlandi, og vináttu og samvinnu milli þjóðanna.

Facebook athugasemdir