Gleðin allsráðandi á Polar Pelagic-hátíð Hróksins á Austur-Grænlandi

7Gleðin er allsráðandi á Pelar Polagic-hátíð Hróksins sem nú stendur sem hæst á Austur-Grænlandi. Fimm liðsmenn skákfélagsins eru nú í heimsókn í Kulusuk og Tasiilaq, og hafa síðustu daga kennt skák í grunnskólunum og framundan eru meistaramót í báðum bæjum. Þá stendur Hrókurinn fyrir útskurðarnámskeiði fyrir börn og ungmenni í Kulusuk, undir handleiðslu Guðjóns Kristinssonar frá Dröngum í Árneshreppi.

Polar Pelagic-hátíðin markar upphafið að fjórtánda starfsári Hróksins á Grænlandi, en alls hafa liðsmenn félagsins farið meira en 50 sinnum til Grænlands að útbreiða skák og efla vináttu og samvinnu nágrannaþjóðanna.

Hátíðin hófst í báðum bæjunum á fimmtudag. Í Kulusuk eru þeir Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, sem kennir skák, og Guðjón Kristinsson sem kennir útskurðarlist. Skólinn í Kulusuk fékk af þessu tilefni mjög veglega gjöf af útskurðarhnífum og verkfærum, frá íslenskri velgjörðarkonu grænlenskra barna sem ekki vill láta nafns síns getið. Börnin í Kulusuk, sem er næsta nágrannaþorp Íslands, hafa ýmist verið í skák eða útskurði síðustu daga og nú um helgina verður haldið stórmót og fjöltefli.

DSC_3792Þrír liðsmenn Hróksins eru í Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands, stórmeistarinn Henrik Danielsen, Jón Grétar Magnússon og Jürgen Brandt. Þeir hafa haldið til í grunnskóla bæjarins og á mánudag verður haldið meistaramót skólans. Þá munu þeir heimsækja heimili fyrir börn, dvalarheimili aldraðra og fleiri staði, með skák og fleiri gjafir í farteskinu frá íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum, og pjónahópum Gerðubergs og Rauða krossins í Reykjavík.

Fjölmargir hafa lagt Hróknum lið við undirbúning og framkvæmd þessarar velheppnuðu hátíðar. Aðalbakhjarlar eru grænlensk-íslenska útgerðarfyrirtækið Polar Pelagic, sem er að þriðjungi í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, og Flugfélag Íslands. Aðrir þátttakendur í hátíðinni eru IKEA, Nói Síríus og BROS-bolir, Dines Tours, TOYOTA, veitingastaðurinn Einar Ben, ZO-ON og sveitarfélagið Sermersooq.

Hróksmenn koma heim í næstu viku en fjölmargar hátíðir til viðbótar eru fyrirhugaðar á Grænlandi. Hróksmenn þakka öllum þeim sem lagt hafa félaginu lið í starfinu á Grænlandi í anda kjörorða Hróksins: Við erum ein fjölskylda.

Facebook athugasemdir