Gleðin allsráðandi á hátíð Hróksins á Grænlandi

Leiðangur Hróksins lenti í dag í Nuuk, höfuðborg Grænlands, og sló umsvifalaust upp hátíð í Nuuk Center, verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar. Sirkuslistamennirnir Axel Diego og Bjarni Árnason frá Sirkus Íslands unnu hug og hjörtu barnanna, myndlistarkonan Inga María Brynjarsdóttir sá um andlitsmálningu og Hrafn Jökulsson tefldi við gesti og gangandi. Mörg hundruð tóku þátt eða fylgdust með hátíðahöldunum. Á morgun liggur leið Hróksins til Uummannaq, 600 km fyrir norðan heimskautsbaug.

Hrafn Jökulsson forseti Hróksins segir mikið tilhlökkunarefni að komast til Uummannaq. ,,Hugur okkar hefur verið hjá fólkinu þarna fyrir norðan, síðan hamfarirnar urðu í sumar sem kostuðu fjóra lífið. Íbúar tveggja þorpa hafa ekki enn getað snúið heim og eru um 170 af þeim í Uummannaq, en íbúar þar voru um 1300 fyrir.

,,Þetta er mikilvægasti leiðangur Hróksins síðan starf okkar hér hófst 2003,“ segir Hrafn. Í Uummannaq verður sirkusskóli, skák og myndlist á efnisskránni, en skólafrí er meðan á heimsókninni stendur og kveðst Hrafn búast við mikilli þátttöku barna í bænum.

,,Jafnframt verður þetta frábært tækifæri fyrir okkur til að hitta flóttafólkið frá Nuugaatsiaq og Illorsuit, sem og aðra íbúa Uummannaq.“

Hrafn skipulagði í sumar landssöfnunina Vinátta í verki á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Hróksins og Kalak. Yfir 40 milljónir króna söfnuðust og hefur verið ákveðið að verja tæpum fjórðungi í samvinnu við Rauða krossinn á Grænlandi, einkum til húsgagnakaupa fyrir þau sem misstu allt sitt í sumar.

,,Við lögðum upp með það skýra markmið að ekki króna færi í kostnað við þessa söfnun og að allt rynni til þeirra sem verst urðu úti, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. Þessvegna er mikilvægt að kynnast ástandinu af eigin raun og hitta fólkið á staðnum. Og það er frábært að koma með þennan góða hóp listamanna og slá upp gleðinnar hátíð þar sem helst er þörf.“

Leiðangur Hróksins er ekki fjármagnaður með söfnunarfé Vináttu í verki. ,,Okkur tókst að skipuleggja þetta með frábærri hjálp og samvinnu fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi og Grænlandi. Mestu varðar auðvitað að vinir okkar Air Iceland Connect og Air Greenland eru aðalbakhjarlar leiðangursins, en ótal margir hafa lagt sitt af mörkum og við tökum mjög þakklát við framlögum til leiðangursins og starfs okkar á Grænlandi,“ segir Hrafn að lokum.

Söfnunarreikningur Hróksins:

513-26-1188
Kennitala: 620102-2880

Facebook athugasemdir