Keppendur á Air Iceland Connect-meistaramótinu í Nuuk kampakátir við verðlaunaafhendingu.

Gleðin allsráðandi á AIC-hátíð Hróksins í Nuuk

Birkir Blær og Jónas Margeir laða fram ljúfa tóna fyrir 1. bekkinga í Nuuk.

Hróksliðar eru í skýjunum í lok fimm daga Air Iceland Connect-hátíðar í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Með hátíðinni var 15 ára starfi Hróksins á Grænlandi fagnað og efnt til margvíslegra viðburða. Samhliða var velferðarsjóðurinn Vinátta í verki kynntur, en hann fær til umráða þær 40 milljónir sem söfnuðust á Íslandi í fyrra eftir hamfarirnar í Uummannaq-firði.

 

Um helgina lagði Hrókurinn undir sig Nuuk Center, verslunarmiðstöð borgarinnar. Hátíðina setti Vivian Motzfeldt, utanríkis- og menntamálaráðherra Grænlands. Hún þakkaði Hróksliðum fyrir starf síðustu 15 ára og sagði skákina henta einstaklega vel sem námstæki fyrir börn og ungmenni. Tónlistarmennirnir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson löðuðu fram ljúfa tóna, ásamt hópi ungmenna frá Barnaheimili Uummannaq, sem var á ferð í Nuuk ásamt forstöðukonunni Ann Andreassen, sem er meðal stjórnarmanna Vináttu í verki. Síðan tefldi Hrafn Jökulsson fjöltefli við tugi heimamanna á öllum aldri, og mátti hafa sig allan við gegn þeirri harðsnúnu sveit.

Á sunnudag var haldið AIC-Meistaramót Nuuk 2018 þar sem sextán skákmenn kepptu um Íslandsferð og fleiri góða vinninga. Sigurvegari varð lögreglumaðurinn og tónlistarmaðurinn Steffen Lynge, sem tekið hefur virkan þátt í starfi Hróksins á Grænlandi allar götur síðan fyrsta alþjóðlega mótið var haldið í Tasiilaq árið 2003.

Hátt í hundrað 1. bekkingar í Nuuk fengu splunkunýja reiðhjólahjálma að gjöf.

Á mánudag heimsótti Hrókurinn tvo grunnskóla og færði hátt í hundrað 1. bekkingum reiðhjólahjálma að gjöf frá Kiwanis-klúbbnum Heklu og Eimskip. Gleðin var allsráðandi og Birkir Blær og Jónas Margeir fylltu skólana af ljúfum tónum.

Hróksliðar brugðu ekki þeim vana að heimsækja fangelsið í Nuuk, og áhuginn var slíkur að farið var í tvær heimsóknir. Þar var bæði teflt og spilað á hljóðfæri af hjartans list.

Krakkarnir á Pitu-heimilinu í Nuuk fengu gjafir frá mörgum íslenskum vinum.

Einn af hápunktum AIC-hátíðarinnar var heimsókn á Pitu-heimilið í Nuuk, sem er fastur viðkomustaður Hróksliða. Þar er tekið við systkinahópum, sem ekki geta verið hjá fjölskyldum sínum, og þeim er búið einstaklega notalegt heimili af hjónunum Vivi Lyngi og Isavaraq Petrussen. Að vanda mættu Hróksliðar klyfjaðir góðum gjöfum frá íslenskum vinum, m.a. prjónahópnum í Gerðubergi og mörgum íslenskum fyrirtækjum.

Síðasta dag hátíðarinnar heimsóttu Hróksliðar athvarf fyrir fólk með geðraskanir og Kofoeds Skole, sem er einstakur griðastaður fyrir heimilislausa og þá sem eiga undir högg að sækja. Þar er hæstráðandi Guðmundur Þorsteinsson, sem í áratugi hefur unnið að margvíslegum samfélagslegum málefnum á Grænlandi, og hefur ásamt eiginkonu sinni, Benedikte Abelsen, unnið þrekvirki við að auka samskipti Íslands og Grænlands.

Samhliða AIC-hátíðinni hafa Hróksliðar hitt gamla vini og eignast nýja.

Hróksliðarnir Hrafn og Jóhanna Engilráð með Henrik Leth, stjórnarformanni Polar Seafood, sem styður dyggilega við starf Hróksins á Austur-Grænlandi.

Þannig áttu Hrafn og Jóhanna Engilráð, 9 ára lukkutröll leiðangursins, fund með Henrik Leth, stjórnarformanni Polar Seafood, stærsta útgerðarfyrirtækis Grænlands. Þar var gengið frá því að Polar Pelagic, dótturfyrirtæki PS og Síldarvinnslunnar, muni standa að fjórðu hátíðinni á Austur-Grænlandi í ársbyrjun 2019.

Á mánudag efndi Skafti Jónsson, sendiherra Íslands í Nuuk, til móttöku fyrir leiðangursmenn og fjölda góðra gesta. Þar veitti Vivian Motzfeldt utanríkis- og menntamálaráðherra viðtöku, f.h. forsætisráðherra Grænlands, forláta taflsetti úr postulíni eftir listamanninn Hauk Halldórsson, sem sótti innblástur í listsköpun Grænlendinga.

Hrafn Jökulsson sagði í ræðu sinni í sendiherrabústaðnum að síðustu 15 ár hefðu verið ævintýri líkust. Landnám Hróksins snerist ekki bara um skák, heldur að efla vináttu og samvinnu nágrannaþjóðanna í norðri á sem flestum sviðum.

Frá móttöku í sendiherrabústaðnum í Nuuk. Kristín Þorsteinsdóttir, Birkir Blær, Jóhanna Engilráð, Ann Andreassen, Jónas Margeir, Stefán Herbertsson og Skafti Jónsson.

Á laugardag tefldi Hrafn Jökulsson fjöltefli við tugi skákþyrstra mótherja á öllum aldri.

Facebook athugasemdir