Gleðin að leiðarljósi í afskekktasta bæ Grænlands: Hátíð í Ittoqqortoormiit um páskana

Skákhátíð Hróksins við Scoresby-sund: 

Liðsmenn Hróksins standa fyrir hátíð í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands, nú um páskana. Bærinn er á 70. breiddargráðu og eru þúsund kílómetrar í næsta byggða ból. Hvergi á Grænlandi er skákkunnátta jafn almenn, enda hafa Hróksliðar heimsótt bæinn árlega í bráðum 10 ár.

20Hátíð Hróksins hefst fimmtudaginn 2. apríl kl. 13 í grunnskóla Ejnars Mikkelsen og síðan verður börnum og fullorðnum boðið í fjöltefli. Föstudaginn 3. apríl verður stórmót, þar sem allir keppendur fá páskaegg frá Bónus og fleiri veglega vinninga og verðlaun. Laugardaginn 4. apríl verður skákmót fyrir börn og fullorðna, þar sem allir keppendur fá verðlaun. Mánudaginn 6. apríl verður svo haldinn ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands“.

Meðan á hátíðinni stendur geta börn og ungmenni tekið þátt í myndasamkeppni Hróksins og Pennans, og munu myndirnar án efa gefa skemmtilega og fróðlega innsýn í líf barnanna í  Ittoqqortoormiit. Samhliða verða sýndar myndir sem stúlkur á leikskólanum Öskju í Reykjavík teiknuðu og sendu með Hróksmönnum til Grænlands.

Leiðangursmenn eru Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Jón Grétar Magnússon, margreyndur Grænlandsfari.

8Íbúar í  Ittoqqortoormiit, sem er við Scoresby-sund, eru rúmlega 400. Bærinn var settur á laggirnar árið 1925 til að styrkja kröfur Dana um yfirráð yfir Austur-Grænlandi, sem Norðmenn ágirntust. Frumbyggjar bæjarins voru flestir frá Ammassalik-svæðinu, og nokkrar fjölskyldur frá Vestur-Grænlandi. Síðla sumars 1925 kom Grænlandsfarið Gustav Holm við á Ísafirði með Grænlendingana sem voru á leið í Scoresby-sund til að byggja nýjan bæ og hefja nýtt líf.  Ittoqqortoormiit þýðir ,,þorp hinna stóru húsa“ og þaðan eru margir nafntoguðustu veiðimenn Grænlands.

Margir aðilar leggja Hróknum lið við hátíðina. Helstu bakhjarlar páskaskákhátíðar Hróksins eru sveitarfélagið Sermersooq, Norlandair, Tele-Post, Flugfélag Íslands, Úrsus, Bónus, Nói Síríus, Henson, Ísspor, Sögur útgáfa, Útivist og Sport o.fl. Þá sendi prjónahópur Rauða krossins góðar gjafir.

Hrókurinn hóf þrettánda starfsárið á Grænlandi með sérlega vel heppnaðri Polar Pelagic skákhátíð í Kulusuk og Tasiilaq nú í febrúar. Í frétt frá Hróknum segir:

Við hlökkum mikið til að hitta vini okkar í  Ittoqqortoormiit, sem er mesti skákbær Grænlands! Þar kunna öll börn að tefla og þar eru sum efnilegustu skákbörn Grænlands. Mestu máli skiptir samt að allir geta verið með og að skák er skemmtileg. Grænlendingar og Íslendingar eru vinir og samherjar í norðrinu. Kjörorð þrettánda ársins á Grænlandi eru: Með gleðina að leiðarljósi!

Facebook athugasemdir