Hrafn Jökulsson, Vivian þingforseti Grænlands í íslenska landsliðsbúningnum, og Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður á Grænlandi.

Gleði, gjafir og vinátta allsráðandi á Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk

Hrafn færði Vivian þingforseta blóm, osta, lambalæri og nýjasta meistaraverk RAX.

Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, var heiðursgestur á Air Iceland Connect-hátíð Hróksins í Nuuk á laugardag. Við sama tækifæri tók hún við taflsettum að gjöf til allra grænlenskra þingmanna, en skákáhugi á Grænlandi hefur vaxið stórum síðan Hrókurinn hélt fyrsta alþjóðlega mótið í sögu landsins árið 2003.

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, setti hátíðina oí Nuuk Center, verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar, og sagði m.a. að Íslendingar væru allra þjóða heppnastir með nágranna. Starfið á Grænlandi hefði verið gefandi, og ánægjulegt að fylgjast með vaxandi samskiptum þjóðanna á öllum sviðum. Þjóðirnar ættu samleið og gætu margt hvor af annarri lært.

Vivian, sem er þaulkunnug starfi Hróksins, þakkaði gjöfina og sagði að grænlenskir þingmenn myndu án nokkurs vafa taka gjöfinni fagnandi, enda skákin ekki einasta skemmtileg heldur gott verkfæri til að þjálfa hugann.

Kirsten Holm tók fagnandi við slaufum frá Krabbameinsfélagi Íslands, sem seldar verða í þágu málstaðarins.

Næst veitti Kirsten Holm, frá Krabbameinsfélagi Grænlands, viðtöku á rausnarlegri gjöf frá íslenska Krabbameinsfélaginu, vel á annað þúsund slaufum sem seldar verða í haust í þágu málstaðarins. Hvergi á Norðurlöndum er tíðni krabbameina jafn há og á Grænlandi. Kirsten bað fyrir kærar kveðjur til íslenskra velunnara, og sagði að gjöfin kæmi að afar góðum notum.

Þá var Henrik Leth heiðraður, en hann er stjórnarformaður Polar Seafood, öflugasta sjávarútvegsfyrirtækis Grænlands. Dótturfyrirtæki Polar Seafood og Síldarvinnslunar, Polar Pelagic, hefur stutt ötullega við starf Hróksins á Austur-Grænlandi mörg undanfarin ár. Henrik lýsti því yfir að fyrirtæki hans myndi áfram styðja starf Hróksins í þágu grænlenskra barna og ungmenna.

Síðast en ekki síst voru meðal heiðursgesta starfsmenn og börn af Pitu-heimilinu, sem er fyrir ungmenni sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum. Hrókurinn hefur í mörg ár fært börnunum þar gjafir frá íslenskum vinum, leikföng og föt, og þau sneru klyfjuð og alsæl heim af skákhátíðinni, eftir að hafa teflt fjöltefi við Róbert Lagerman, varaforseta Hróksins.

Teflt blindandi. Róbert tefldi með bundið fyrir augun gegn blinda snillingnum Paulus Napatoq frá Ittoqqortoormiit.

Áður en fjölteflið hófst mættust Róbert og Paulus Napatoq, blindi skáksnillingurinn frá Ittoqqortoormiit, í sýningarskák. Róbert var með bundið fyrir augun, svo teflt væri á jafnréttisgrundvelli og lauk skákinni með jafntefli eftir æsispennandi sviptingar.

Róbert tefldi svo við tugi heimamanna á öllum aldri, og náðu þrjú ungmenni jafntefli gegn meistaranum.

Allir heiðursgestir hátíðarinnar voru leystir út með gjöfum, og vakti ekki síst lukku þegar Þorbjörn Jónsson, aðalræðismaður Íslands á Grænlandi, færði Vivian Motzfeldt landsliðstreyju í tilefni af sigri Íslands á Albaníu í knattspyrnu, en óhætt er að fullyrða að Íslendingar eigi hvergi dyggari stuðningsmenn en á Grænlandi.

Gestir Hróksins á Air Iceland Connect-hátíðinni voru auk þess leystir út með margvíslegum glaðningi, m.a.  frá Air Iceland Connect, MS, KSÍ, Ísspor, Kiwanis, RAX, Sagafilm, Grænum markaði og íslenskum hannyrðakonum.

Hátíðin heldur áfram á sunnudag, þegar haldið verður Air Iceland Connect meistaramótið í Nuuk. Þar á Steffen Lynge, skákmeistari, lögregluþjónn og tónlistarmaður titil að verja.

Facebook athugasemdir