Gleðin ræður ríkjum í ísbjarnarbænum um páskana.

Gleði á Hrókshátíð í mesta ísbjarnarbæ Grænlands

Ittoqqortoormiit. Afskekktasta þorp Grænlands.

Gleðin ræður ríkjum á skákhátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, afskekktasta bæ Grænlands. Þetta er tólfta árið í röð sem Hrókurinn slær upp páskahátíð í bænum, og er skákkunnátta hvergi almennari á Grænlandi. Ittoqqortoormiit (sem þýðir ,,þorp hinna stóru húsa“) hefur verið í fréttum að undanförnu vegna tíðra heimsókna ísbjarna. Alls hafa 19 ísbirnir verið felldir í bænum eða grenndinni síðan í janúar.

En ísbirnirnir stöðvuðu ekki þrjá liðsmenn Hróksins, sem á þriðjudaginn flugu frá Akureyri til Nerlerit Inaat með Norlandair. Þaðan fóru þau með þyrlu og vélsleða til bæjarins, þar sem íbúar eru á fimmta hundrað. Leiðangursmenn eru Róbert Lagerman, Joey Chan og Máni Hrafnsson, sem einnig sáu um hátíðarhöld í fyrra.

Það verða páskaegg handa öllum…

Á miðvikudag heimsóttu Hróksliðar leikskólann og elliheimilið, með páskaegg, prjónaföt og annan glaðning. Öll börnin í leikskólanum fengu gjöf frá IKEA og páskaegg, og hefðarfólkið af eldri kynslóðinni fékk auðvitað páskaegg líka, og gjafir frá prjónakonunum í Gerðubergi og Suðureyri.

Á fimmtudag tefldi Róbert Lagerman Norlandair-fjöltefli í íþróttahúsi bæjarins, sem breytt hefur verið í skákhöll. Róbert mætti harðsnúinni sveit næstum 50 heimamanna, og mátti hafa sig allan við. Það er til marks um kappsemina að þónokkrir höfnuðu jafnteflisboði meistarans, og tefldu til þrautar. Að lokum var það aðeins hin unga og efnilega Jokiba Napatoq, sem gerði jafntefli við Róbert.

Listsmiðja Joey nýtur mikilla vinsælda.

Samhliða skákhátíðinni annast Joey Chan listsmiðju fyrir börnin, og verða veitt verðlaun fyrir bestu myndirnar. Joey hefur unnið hug og hjörtu barnanna, sem teikna og lita af lífi og sál. Sýning á myndum barnanna verður sett upp í Reykjavík á vordögum.

Á föstudaginn langa var svo komið að Bónus-páskaeggjamótinu, en þar fá allir þátttakendur páskaegg og annan glaðning. Meistaramót Ittoqqortoormiit fer fram á laugardag og á mánudag verður hinn árlegi ,,Dagur vináttu Grænlands og Íslands“.

Þetta er önnur ferð Hróksliða til Grænlands á þessu ári, en í febrúar var Polar Pelagic-hátíð í Kulusuk. Í byrjun júní verður svo hin árlega Air Iceland Connect-hátíð í Nuuk. Og fleira er í farvatninu, að sögn Hrafns Jökulssonar hjá Hróknum:

,,Nú eru 15 ár síðan skáklandnámið á Grænlandi hófst og því fögnum við með margvíslegum hætti. Markmið okkar er ekki bara að útbreiða skák og skapa gleðistundir fyrir börn og ungmenni, heldur að efla samvinnu og vináttu þjóðanna á sem flestum sviðum.“

Facebook athugasemdir