Fyrsta skákmótið á Íslandi sem sögur fara af

Pétur Zóphóniasson. Frumkvöðull í íslensku skáklífi og faðir TR. Sigraði á fyrsta mótinu.

Pétur Zóphóniasson. Frumkvöðull í íslensku skáklífi og faðir TR. Sigraði á fyrsta mótinu.

Fyrsta skákmótið sem sögur fara af á Íslandi var haldið á vegum Taflfélags Reykjavíkur í janúar 1901. Félagið var formlega stofnað 6. október árið áður og voru stofnendur 29, flestir úr efri lögum mannfélagsins. Liðsmenn hittust á laugardagskvöldum og fjölgaði upp í 40 fyrsta veturinn.

Fyrstu stjórn Taflfélagsins skipu Pétur Zóphoníasson verslunarmaður og ættfræðingur, Sigurður Jónsson fangavörður og Sturla Jónsson kaupmaður. Hið nýja félag naut mjög góðs af velvild Íslandsvinarins, fræðimannsins og auðkýfingsins Willards Fiske sem bjó suður í Flórens. Hann sendi TR forláta taflsett, vasatöfl, skákbækur og peninga. Fiske hleypti líka af stokkunum tímaritinu Í uppnámi, sem þótti eitthvert vandaðasta skáktímarit heims.

Einar Benediktsson var meðal keppenda á skákmótinu.

Einar Benediktsson var meðal keppenda á skákmótinu.

Því miður hafa ekki varðveist, svo vitað sé, ítarlegar frásagnir af fyrsta skákmótinu sem Taflfélagið efndi til, en við þekkjum þó nöfn keppendanna, vitum hver sigraði og hvaða skák var send Fiske til birtingar í hinu virta tímariti Deutsche Schachzeitung.

Keppendur voru eftirtaldir:
1. Björn Pálsson skólapiltur.
2. Einar Benediktsson málafærslumaður og skáld.
3. Friðrik Jónsson kaupmaður.
4. Pétur Pétursson gjaldkeri.
5. Pétur Zóphoníasson verslunarmaður.

Sigurður Thoroddsen verkfræðingur. Merkur verkfræðingur en tapaði illa fyrir meistara Pétri.

Sigurður Thoroddsen verkfræðingur. Merkur verkfræðingur en tapaði illa fyrir meistara Pétri.

6. Sigurður Jónsson fangavörður.
7. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur.
8. Sturla Jónsson kaupmaður.

Það fór vel á því að hinn óþreytandi Pétur Zóphoníasson yrði efstur á mótinu, og ætti þar að auki bestu sigurskákina. Fórnarlamb hans var Sigurður Thoroddsen sem var fyrsti verkfræðingur Íslendinga. Sigurðar verður lengur minnst í Íslandssögunni fyrir brúargerð og vegalagningu en afrek við skákborð, einsog viðureign þeirra Péturs ber með sér…

Facebook athugasemdir