Fyrsta skákkona Íslands: Teikning af Ingunni Arnórsdóttur afhent ráðherra

Portrett listakonan Svala Sóleyg

Portrett listakonan Svala Sóleyg

Þann 6. nóvember s.l. afhentu  þeir Einar S. Einarsson og Páll G. Jónsson, Illuga Gunnarsyni mennta- og menningarmálaráðherra forláta teikningu  af Ingunni Arnórsdóttur fyrstu menntakonu Íslands eftir Svölu Sóleygu Jónsdóttur.

Ingunn Arnórsdóttir er fyrsta nafnkunna skákkona landsins og hugsanlega í heiminum.  Hún var í vist hjá Jóni helga Ögmundssyni biskupi á Hólum 1102 og lærði latínu af því að hlusta á kennslu skólasveina. Síðar varð hún aðal latínukennari sinnar samtíðar.

Tilefni þess að myndlistarkonan Svala Sóleyg (eiginkona Einars S. Einarssonar) fór að gera innblásnar teikningar af ýmsum fornkonum er að Guðm. G. Þórarinsson vantaði myndir í rit sitt um taflmennina frá Ljóðhúsum (The Lewis Chessmen), sem hann telur vera íslenska af uppruna, gerða af Margréti hinn oddhögu prestrú í Skálholti um 1200.  Hólar þar sem Ingunn var og hét er skammt frá Siglunesi þar sem nýlega fannst forn taflmaður frá sama tíma mjög áþekkur hinum fornu sögualdartaflmönnum sem nú eru meðal merkustu muna Breska þjóðminjasafnsins.

Portrett listakonan Svala Sóleyg hefur teiknað fjölmargar myndir af mörgum okkar bestu skákmanna og erlendum meisturum. Henni lætur líka einkar vel að gera tilgátuteikningar af þekktu sögupersónum og gefa þeim þannig ásjónu. Myndir af börnum, kisum og hundum hafa einnig verið meðal viðfangsefna hennar auk annars. Teikning hennar af Margréti hinni högu prestfrú í Skálholti 1190-1230, sem hún er að teikna þegar myndin er tekin hefur víða birst.

Óhætt er að mæla með heimasíðu Svölu þar sem hægt er að skoða mörg af glæsilegum verkum hennar.

Margrét hin haga og taflmennirnir frá Ljóðhúsum (Lewis) 9.11.2014 23-32-...

INGUNN ARNÓRSDÓTTIR – FYRSTA MENNTAKONA ÍSLANDS

Ingunn Arnórsdóttir -fyrsta menntakona Íslands og skákkona

Ingunn Arnórsdóttir -fyrsta menntakona Íslands og skákkona

Ingunn Arnórsdóttir var fyrsta lærða konan hér á landi og kennari á 12. öld. Rómuð  handyrðakona og fyrsta nafnkunna skákkona Íslands – ef ekki í heimi.   Hún var skagfirsk, af ætt Ásbirninga, dóttir Arnórs Ásbjarnarsonar og systir Kolbeins Arnórssonar, föður þeirra Arnórs og Tuma Kolbeinssona. Ingunn var á Hólum hjá Jóni biskupi Ögmundssyni og er fyrsta íslenska konan sem sögur fara af sem var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns við pilta og kenndi þeim líka.

Frá henni segir í sögu Jóns biskups, þegar taldir hafa verið upp nokkrir vel menntaðir skólapiltar, þar á meðal tveir sem síðar urðu biskupar:

Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna.

Ásamt því að kenna prestsefnum latínu, stundaði Ingunn útsaum og er talið að hún hafi meðal annars saumað altarisklæði um heilaga Maríu og ævi St. Marteins. Bæði þessi klæði eru nú á erlendum söfnum.

Ingunn Arnórsdóttir hefur einnig verið nefnd meðal heimildarmanna Odds Snorrasonar munks á Þingeyrum að Ólafs sögu Tryggvasonar Noregkonungs.

Ingunnarskóli í Grafarholti í Reykjavík er kenndur við Ingunni Arnórsdóttur.

Facebook athugasemdir