,,Fyrirgefðu, mát elskan“

Guðfinnur Kjartansson

Guðfinnur Kjartansson

Guðfinnur Kjartansson hefur um árabil verið einn af máttarstólpum skáklífs á Íslandi. Hann átti hugmyndina að stofnun kvennadeildar Taflfélags Reykjavíkur 1975, sem átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Hér rifjar Guðfinnur upp stofnun deildarinnar og kynni sín af Birnu Norðdahl.

Það var í upphafi á því herrans ári 1975, ég þá nýkjörinn formaður TR og kvennaárið mikla nýhafið, að hugurinn rann yfir farinn veg og hvað mætti bæta í íslensku skáklífi. Það rifjaðist þá upp fyrir mér að móðir mín kenndi með mannganginn og tefldi við okkur bræður með sitt hvorri hendinni. Það var mér líka í fersku minn hversu lengi og óframfærin ég var til þátttöku í reykvísku skáklífi.

Það liðu 9 ár frá því ég flutti frá Ísafirði að ég þorði að mæta á skákæfingar hjá TR. Mér var það líka nokkuð ljóst að sama var upp á teningnum hjá mörgum konum, þær höfðu sig ekki í að mæta inn í þetta karlaveldi. Ég vissi líka að í hópi kvenna voru margar liðtækar við skákborðið.

Birna og systur hennar

Birna og systur hennar

Ég ræddi við félaga mína í stjórninni um stofnum kvennadeildar innan félagsins, því var misjafnlega tekið eins og gengur, en nokkrir stjórnarmenn töldu þetta rétt skref en aðrir sögðu að konur mættu og gætu teflt með okkur körlunum. Ég benti þeim á að best væri að hafa þetta aðskilið í fyrstu, og síðar ef þetta tækist vel myndu þær sameinast körlunum á æfingum og í mótum.

TR auglýsti kvennamót seint í janúar þetta ár og stofnun kvennadeildar. 48 konur mættu og gerðust stofnfélagar (28 karlar stofnuðu TR árið 1900) en 22 tóku þátt í fyrsta mótinu sem Guðlaug Þorsteinsdóttir sigraði. Formaður deildarinnar var kjörin Sjöfn Kristjánsdóttir.

Birna var ein af glöðustu manneskjum sem ég hef kynnst um ævina. Hún hló dátt og innilega. Það geislaði af henni orka og áhugi.

Birna Nordahl er mér minnisstæð hún var mun eldri en allflestar stelpurnar, hokin af lífsreynslu og byrjaði fljótlega baráttu fyrir tilvist deildarinnar og framgangi kvenna í skák og á skákmótum. Hún hóf strax baráttu fyrir að kvennalið færi á Ólympíumót.

Á þeim tíma og sennilega enn, var stóri vandinn að fjármagna slíkar ferðir, en Birna hóf fljótlega fjáröflun til slíkrar ferðar, hún barðist með „kjafti og klóm“ og hafði sitt fram, kvennasveit var send þremur árum síðar alla leið til Argentínu og árangurinn var glæsilegur 21. sætið staðreynd af 32 þjóðum.

Birna var ljúf kona og góð og lýsir eftirfarandi setning sem hún sagði oft, henni vel: „Fyrirgefðu, mát elskan.“

Facebook athugasemdir