,,Furðulegt skákmót“ — fyrsti sigur Shorts á Íslandi

Árið 1985 kom Nigel Short í fyrsta skipti til Íslands. Hann var meðal keppenda á ,,einhverju furðulegasta skákmóti sem ég hef nokkru sinni tekið þátt í“ einsog hann komst að orði, þegar hann rifjaði upp sögufrægt alþjóðamót í Vestmannaeyjum, sem Jóhann Þórir Jónsson stóð fyrir.

Short hélt upp á tvítugsafmælið sitt í Heimaey 1. júní þetta ár, og því var vitanlega ákaft fagnað, enda var víst bæði glaumur og gleði allsráðandi öll kvöld meðan á mótinu stóð. En það skorti reyndar ekki dramatík, og er fræg sagan af því þegar stórmeistarinn og klerkurinn William Lombardy hótaði Karli Þorsteins barsmíðum — af því segir í næsta pistli um þetta ,,furðulega skákmót“…

Short fór afar rólega af stað í Eyjum, gerði jafntefli í fyrstu fjórum skákunum og tapaði svo fyrir Jóni L. Árnasyni. Það var þó hátíð miðað við gengi landa hans, James Plaskett, sem einmitt varð stórmeistari þetta ár. Plaskett tapaði hvorki meira né minna en sjö fyrstu skákunum og væri fróðlegt að vita hvort lesendur þekkja dæmi um hraksmánarlegri byrjun hjá stórmeistara á alþjóðlegu skákmóti. Hann náði reyndar að rífa sig upp og fékk 4,5 vinning í síðustu sex skákunum, og var okkar maður Short meðal fórnarlamba hans.

En við ætlum nú að rifja upp fyrstu sigurskák hins tvítuga Shorts á Íslandi. Hann hafði svart gegn Karli Þorsteins; lengi vel virtist skákin í þokkalegu jafnvægi en svo dró Short fram töfrasprotann…

Facebook athugasemdir