Grænland: Með gleði, virðingu og vináttu að leiðarljósi

2222 2 898Hrókurinn hefur síðan árið 2003 unnið að útbreiðslu skákíþróttarinnar meðal okkar næstu nágranna á Grænlandi. Þar var skák að kalla óþekkt, þegar fjölmenn sendisveit hélt til Qaqortoq á Suður-Grænlandi þar sem haldið var glæsilegt alþjóðlegt skákmót – hið fyrsta í sögu Grænlands.

Enska undrabarnið Luke McShane vann glæsilegan sigur á fyrsta Grænlandsmótinu, sem tileinkað var minningu Willards Fiske (1831-1904). Meðal keppenda voru stórmeistarar á borð við Friðrik Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Hannes H. Stefánsson, Ivan Sokolov, Predrag Nikolic og Nick deFirmian. Þarna voru líka grænlenskir og íslenskir áhugamenn á öllum aldri, og er þessi hátíð öllum ógleymanleg. Sérstakan svip á mótið settu kempurnar Halldór Blöndal og Jonathan Motzfeldt, þingforsetar Íslands og Grænlands.

Keppendur á Flugfélagsmótinu í Tasiilaq 2006

Keppendur á Flugfélagsmótinu í Tasiilaq 2006

Árið eftir lá leiðin til Austur-Grænlands, þar sem Hrókurinn sló upp skákhátíð íIMG_4122 Tasiilaq, sem margir Íslendingar þekkja betur sem Ammassalik. Tasiilaq er höfuðstaður Austur-Grænlands, með tæplega 2000 íbúa, og þar í grennd eru fimm þorp þar sem íbúar eru 100 til 500. Þarna var þungamiðjan í starfi Hróksins næstu árin, og liðsmenn okkar hafa heimsótt öll þorpin margsinnis, haldið námskeið, fjöltefli og skákmót. Þá er búið að gefa hátt í 2000 taflsett á Austur-Grænlandi, og nú er svo komið að næstum hvert einasta barn á þessum slóðum kann að tefla.

Um páskana 2005 bættist nýr áfangastaður á austurströndinni við: Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, sem er næstum þúsund kílómetrum norðar en Tasiilaq, og eitt afskekktasta þorp á norðurhveli jarðar. Íbúar voru þá liðlega 500, og tóku börn og fullorðnir skákinni tveimur höndum. Allar götur síðan hafa liðsmenn Hróksins heimsótt þorpið um páskana, svo þar hefur nú skapast mikil og skemmtileg skákmenning.

Árið 2012 hófst svo skákvæðing höfuðborgarinnar Nuuk fyrir alvöru. Nuuk er á vesturströndinni og eru íbúar um 16 þúsund. Á síðustu tveimur árum hafa Hróksmenn haldið fimm skákhátíðir í Nuuk, heimsótt skóla, athvörf, barnaheimili og leikskóla, auk þess að gefa mörg hundruð taflsett og aðrar gjafir. Þá vinnur Hrókurinn náið með skákfélaginu í Nuuk, sem verður sífellt öflugra og metnaðarfyllra.

Gleðikveðja frá Tasiilaq! Sunnudagurinn á torginu er öllum ógleymanlegur.

Gleðikveðja frá Tasiilaq! Sunnudagurinn á torginu er öllum ógleymanlegur.

Einum af hátindunum í skáklandnámi Grænlands var náð í svartasta skammdeginu 2013 þegar liðsmenn Hróksins heimsóttu Upernavik, sem liggur á 72. breiddargráðu á vesturströndinni. Þar eru íbúar um 1200 og er Upernavik stundum kallaður ,,gleymdi bærinn á Grænlandi“, því sárafáir leggja þangað leið sína og lítið er í boði fyrir börnin. Þar var sama sagan og annarsstaðar: Börnin tóku skákinni fagnandi og þyrptust á viðburði Hróksins. Liðsmenn okkar heimsóttu auk þess grunnskólann, leikskólann, og athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Hrókurinn stefnir að því að gera hátíð í Upernavik að árlegum viðburði – svo skákin megi áfram blómstra í gleymda bænum.

IMG_4117Heimsóknir Hróksins til Grænlands eru nú orðnar um 40. Þúsundir barna kunna
nú að tefla og fjölmargir fullorðnir hafa hrifist með. Stofnuð hafa verið skákfélög víða um landið. Skólafólk og foreldrar átta sig á hve skákin hentar vel, sem uppbyggileg og holl tómstundaiðja, og ráðamenn á Grænlandi eru afar jákvæðir í garð skákarinnar. Hróksmenn hafa á síðustu misserum átt marga og góða fundi með forsætisráðherra Grænlands, menntamálaráðherra, þingmönnum, borgarstjóranum í Nuuk og fleira áhrifafólki til að kynna skákina og starf Hróksins.

Stefna Hróksins er að heimsækja hvern einasta bæ og þorp á Grænlandi. Á árinu 2014 höfum við þegar sent þrjá leiðangra til Grænlands og fleiri eru í bígerð, meðal annars á nýjar slóðir.

DSC_1010Markmiðið með starfi okkar er ekki einvörðungu að kynna þjóðaríþróttina fyrir okkar góðu nágrönnum: Við teljum að Ísland og
Grænland eigi að stórauka samvinnu sína á sem allra flestum sviðum. Ísland og Grænland eru vinir og samherjar í norðrinu, og þjóðirnar geta margt lært hvor af annarri. Í þessum anda höfum við ekki bara fengið skákmeistara með okkur til Grænlands, heldur líka skólafólk, börn, listamenn og fulltrúa atvinnulífs og stjórnmála. Liðsmenn Hróksins eru jafnframt afar virkir í starfi Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands.

Gleði, virðing og vinátta eru okkar leiðarljós.

Skakki aliikkutaalluarpoq! Skák er skemmtileg!