Frábært maraþon Hróksins í Hörpu í þágu Unicef og Fatimusjóðs fyrir sýrlensku flóttabörnin: Við erum svo sannarlega ein fjölskylda!

IMG_6403Hrókurinn stóð á föstudag og laugardag fyrir frábæru skákmaraþoni í Hörpu í þágu söfnunar Unicef og Fatimusjóðs fyrir sýrlensk flóttabörn. Hrafn Jökulsson forseti félagsins tefldi hátt í 200 skákir við áskorendur úr öllum áttum. Fjöldi fólks fylgdist með og margir lögðu söfnuninni lið, og fara framlögin óskert til skólahalds fyrir börn í flóttamannabúðum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lék fyrsta leikinn á föstudagsmorgun í skák Hrafns við Björgvin Kristbergsson. Forsætisráðherrann notaði tækifærið og sendi SMS í númer 1900 með textanum BARN, en þannig er hægt að leggja til 1490 krónur, sem duga fyrir skólagögnum fyrir eitt flóttabarn.

3Áskorendur Hrafns komu úr öllum áttum, og voru í hópnum jafnt stórmeistarar sem byrjendur, börn og fullorðnir.

Meðan á maraþoninu stóð tóku fulltrúar Unicef og Fatimusjóðs við framlögum, og jafnframt voru til sölu í Hörpu bækur Jóhönnu Kristjónsdóttur, stofnanda Fatimusjóðs, og gullfalleg póstkort sem Prentsmiðjan Oddi lagði til.

Söfnunin fyrir sýrlensku flóttabörnin heldur áfram og hvetur Hrókurinn alla sem geta til að leggja þessu góða málefni lið.

IMG_6509Áfram er hægt að senda sms í númer 1900 með textanum BARN og leggja þannig til 1490 krónur.

Þá er hægt að leggja frjáls framlög inn á reikning Fatimusjóðs:

Reikningsnúmer: 0512-04-250461
Kennitala: 680808-0580

Hrókurinn þakkar öllum sem tóku þátt í maraþoninu, og ekki síður þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum og fyrirtækjum sem lögðu sitt af mörkum. Kostnaður við maraþonið var enginn, þar sem allir gáfu vinnu sína, Harpa lagði til aðstöðu og fyrirtæki gáfu bækur og prentgripi. Á þriðjudag mun liggja fyrir hve mikið safnaðist í tengslum við maraþonið en ljóst er að upphæðin fer vel yfir milljón!

Kjörorð skákhreyfingarinnar áttu svo sannarlega vel við í Hörpu: ,,Við erum ein fjölskylda!“

Facebook athugasemdir