Frábærir Fjölniskrakkar: Senda fjölmargar gjafir og taflsett til grænlenskra barna

Börnin í skákdeild Fjölnis komu færandi hendi á skákæfingu í Rimaskóla í dag. Þau IMG_0260komu með fjölmargar skemmtilegar og nytsamlegar gjafir til barnanna á Grænlandi, en þangað halda liðsmenn Hróksins í næstu viku.

Hrafn Jökulsson og Róbert Lagerman úr Hróknum komu í heimsókn á æfinguna og veittu gjöfunum viðtöku. Þarna voru meðal annars litir og litabækur, púsluspil og leikföng, föt og marskyns fínerí. Og ekki nóg með það: Krakkarnir söfnuðu líka næstum 30 þúsund krónum, sem duga til að kaupa 15 góð taflsett handa grænlensku börnunum!

IMG_0257IMG_0255Frumkvæði að þessum góðu gjöfum átti Helgi Árnason skólastjóri og formaður skákdeildar Fjölnis, en hann hefur tvisvar komið í skákferðir til Grænlands ásamt börnum úr Rimaskóla. Hrafn og Róbert færðu Helga og hans knáu liðsmönnum djúpar þakkir fyrir að sýna okkar næstu nágrönnum á Grænlandi vinarþel í verki. Öll fengu hin gjafmildu börn póstkortaseríu Hróksins frá skákstarfinu á Grænlandi, auk þess sem Hrafn sagði þeim dálítið frá okkar stórbrotna nágrannalandi.

Mikið líf var á æfingunni hjá Fjölni, og tugir stráka og stelpna skemmtu sér konunglega og sýndu góða takta, enda er Rimaskóli einhver mesti skákskóli í heiminum!

Takk fyrir frábært framtak, Fjölnismenn!

Facebook athugasemdir