Frábærar viðtökur við söfnun Hróksins fyrir börn á Grænlandi: Hátíð við höfnina á sunnudag!

10623957_655502071224197_7025081996880707936_o

Jóhanna Engilráð, 5 ára, færði Vigdísi Finnbogadóttur fallegan blómvönd þegar fyrsta fatasendingin fór til Grænlands sl. miðvikudag. Vigdís er verndari söfnunarinnar.

Hróksmenn bjóða öllum sem vettlingi valda að koma og vera við vígslu Pakkahússins, sunnudaginn 7. september, þar sem tekið er við fatnaði og skóm fyrir börn á Austur-Grænlandi. Húsið opnar klukkan 12 og klukkan 13 verður frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari söfnunarinnar, viðstödd vígsluathöfn. Tekið verður við fötum til klukkan 16. Það verður heitt á könnunni, töfl og klukkur, og leikhorn fyrir börnin.  Brim hf. leggur til aðstöðuna, og er Pakkahúsið í vöruskemmu fyrirtækisins við Geirsgötu, alveg við höfnina. Blöðrur og fánar munu vísa veginn.

Hróksmenn þekkja vel til á Grænlandi. Síðan 2003 hafa liðsmenn félagsins farið í um 40 ferðir til að kynna skákíþróttina, jafnframt því að vinna að aukinni samvinnu og vinskap Íslendinga og Grænlendinga á sem flestum sviðum. Til söfnunarinnar var stofnað í samvinnu við skólastjóra og fleiri vini Hróksins í Ittoqqortoormiit, sem er afskekktasta þorp Grænlands. Safnað er fötum á 0 til 15 ára börn, nýjum, eða óslitnum og hreinum.

Söfnunin hófst á Facebook og hafa nú á fimmta hundrað skráð sig í hóp, sem helgaður er málefninu. Skólar víða um land taka þátt í verkefninu, fyrirtæki og fatabúðir hafa gefið rausnarlega, og Flugfélag Íslands, Norlandair og Norðursigling flytja fötin endurgjaldslaust til Grænlands. Fyrsta sending fór með Norðursiglingu sl. miðvikudag, 3. september. Næsta sending fer 10. september til Ittoqqortoormiit.

Geirsgata

Brim hf. leggur til húsnæði í vöruskemmu við Geirsgötu. Þar er frábær aðstaða til flokkunar og pökkunar.

Í ljósi þess hve söfnunin hefur gengið vel, var ákveðið að safna líka fyrir börn í öðrum þorpum á Austur-Grænlandi. Á austurströndinni búa aðeins um 4000 manns, og eru lífskjör trúlega hvergi lakari á öllum Norðurlöndum. Fólkið á austurströndinni stendur Íslendingum næst, bókstaflega, og með söfnuninni vilja Hróksmenn líka minna á að Íslendingar eru þjóða heppnastir í heiminum með nágranna.

Tekið verður við fötum í Pakkahúsinu á sunnudag. Í næstu viku mun Norræna félagið, Óðinsgötu 7, halda áfram að taka við fatnaði og skóm í söfnunina.

Verið er að undirbúa söfnun í Naustaskóla á Akureyri, sem og í grunnskólunum á Þelamörk, Dalvík, Grenivík, Fáskrúðsfirði og víðar. Byrjað er að safna í Rimaskóla í Reykjavík, og innan tíðar hefst söfnun hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar. Á dögunum stóð Skákfélagið Huginn fyrir velheppnaðri söfnun á Húsavík, og margt fleira er í bígerð vítt og breitt um landið.

Hróksmenn vona að sem flestir leggi leið sína í Pakkahúsið á sunnudag. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook

[slideshow_deploy id=’2442′]

Facebook athugasemdir