Nemendur í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit á skákhátíð Hróksins.

Frábærar undirtektir við fatasöfnun Hróksins fyrir börn á Grænlandi — Safnað fyrir öll þorpin á austurströndinni!

Vigdís FinnbogadóttirHrókurinn, í samvinnu við fjölmarga aðila, stendur nú fyrir söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn á Austur-Grænlandi, en þar búa næstu nágrannar Íslendinga. Skólar víða um land, fyrirtæki og einstaklingar taka þátt í söfnunni sem stendur út september. Verndari söfnunarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

Til söfnunarinnar var stofnað í samvinnu við skólastjórnendur í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, sem er á 70. breiddargráðu. Hróksmenn þekkja vel til í þessu 450 manna þorpi, eftir að hafa skipulagt þar veglegar páskaskákhátíðir fyrir börn og ungmenni síðustu átta árin. Óskað er eftir hverskyns nýjum eða óslitnum og hreinum fötum og skóm á börn á aldrinum 0-15 ára.

Söfnunin hófst í síðustu viku og voru undirtektir strax frábærar. Tekið er við fötum hjá Norræna félaginu, Óðinsgötu 7, Reykjavík, milli kl. 9 og 16. Þá er söfnun að hefjast á vegum Rimaskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Um síðustu helgi stóð Skákfélagið Huginn fyrir mjög vel heppnaðri söfnun á Húsavík, söfnun er hafin á vegum Naustaskóla á Akureyri og Dalvíkurskóla, og á næstu dögum bætast við  Þelamerkurskóli, Grunnskólinn á Grenivík, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar og fleiri.

Nemendur í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit á skákhátíð Hróksins.

Nemendur í grunnskólanum í Ittoqqortoormiit á skákhátíð Hróksins.

Fyrsta sendingin fer til Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorps Grænlands, á miðvikudag. Flugfélag Íslands, Norlandair og Norðursigling hafa tekið að sér að flytja gjafirnar frá Íslandi endurgjaldslaust. Þá leggur Brim hf. til húsnæði fyrir flokkun og pökkun.

Í ljósi þess hve söfnunin gengur vel hafa Hróksmenn ákveðið að önnur þorp á Austur-Grænlandi njóti góðs af. Næst er röðin komin að Kuummiut, sem er í grennd við Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands. Íbúar Kuummiut eru um 330, en alls eru íbúar á Austur-Grænlandi um 4000 og búa í sjö þorpum og bæjum. Markmið liðsmanna Hróksins er að börn í öllum þessum þorpum fái á næstu vikum glaðning frá Íslendingum.

Áfram verður tekið við fötum og skóm hjá Norræna félaginu, Óðinsgötu 7, Reykjavík. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Facebook-síðu söfnunarinnar!

[slideshow_deploy id=’2302′]

 

Facebook athugasemdir