Frábær skemmtun á fyrsta móti Hróksins og Café Stofunnar: Munið hvar við erum — það er skylda að fórna!

Gunnar Björnsson og Róbert Lagerman

Óvenju alvörugefnir forsetar. Gunnar Björnsson forseti SÍ hlaut silfur og Róbert Lagerman forseti Vinaskákfélagsins gull.

Róbert Lagerman sýndi afhverju hann er kallaður skákljónið, þegar hann sigraði á sterku og afar skemmtilegu hraðskákmóti, sem Stofan Café og Hrókurinn stóðu fyrir á fimmtudagskvöld.

Kaffihúsataflmennska var í hávegum höfð, enda tilmæli skákstjóra að mjög æskilegt væri að fórna liði í hverri einustu skák.

Skákmenn úr öllum áttum mættu til leiks á fyrsta hraðskákmótið sem Stofan Café og Hrókurinn standa fyrir. Ritstjórn Hróksins mætti með næstum fullmannað lið, og sérstakt ánægjuefni að Kári Elísson var meðal keppenda.

Kári Elíson og Hrafn Jökulsson

,,Sálarlausi peðamorðingi!“ heyrðist muldrað yfir þessari skák Kára Elíssonar og Hrafns Jökulssonar. Jafntefli varð niðurstaða eftir darraðardans.

Einstaklega góður andi sveif yfir vötnum, og var liði fórnað í stórum stíl í mörgum skákum. Markmið Hróksins og Stofunnar tókst sannarlega: Að bjóða til alvöru kaffihúsaskákmóts.

Skákljónið lék ekki bara listir sínar á skákborðinu, Róbert var líka skákstjóri (enda með alþjóðleg dómararéttindi) og eggjaði menn til að tefla af dirfsku:

Munið hvar við erum — það er skylda að fórna!

Það hefur hinsvegar aldrei þurft að brýna Róbert til að tefla djarft, og hann landaði sigri á mótinu, fékk 6,5 vinning af 8.

kaffihusaskak_Ingvar2

Ómissandi gleðigjafar á öllum betri skákmótum: Ingvar Þór og Jón Gunnar taka saman höndum.

Róbert fékk í sigurlaun gjafabréf frá Stofunni og auk þess kaffikort sem tryggir honum 10 bolla af besta kaffinu í bænum. Gunnar Björnsson hreppti silfrið, sjónarmun á undan Ólafi B. Þórssyni, en báðir fengu þeir 5,5 vinning. Forseti Skáksambandsins fékk gjafabréf og kaffikort í verðlaun.

Þá var efnt til happdrættis meðal keppenda og þar datt Ingvar Þór Jóhannesson í lukkupottinn. Ingvar Þór, sem var stigahæsti keppandi mótsins, hafði verið mjög örlátur við andstæðinga sína á mótinu og var því vel að happdrættisvinningnum kominn.

Í stuttu máli sagt: Dúndrandi skemmtilegt kvöld á Stofunni.

Sæti Nafn Skákstig Vinningar
1 Róbert Lagerman 2305 6,5
 2-3 Gunnar Björnsson 2070 5,5
 2-3 Ólafur B. Þórsson 2200 5,5
 4-6 Stefán Þór Sigurjónsson 2145 5
 4-6 Hörður Aron Hauksson 1800 5
 4-6 Stefán Arnalds 2000 5
 7-8 Kári Elíson 2006 4,5
 7-8 Hrafn Jökulsson 1800 4,5
 9-10 Einar Valdimarsson 1880 4
 9-10 Ingvar Þór Jóhannesson 2375 4
 11-13 Gísli Hrafnkellsson 1700 3
 11-13 Jón Gunnar Jónsson 1700 3
 11-13 Arnór Hreinsson 1560 3
14 Sindri Guðjónsson 1895 2,5
15 Sigurður E. Kristjánsson 1825 2
16 Hjálmar Sigurvaldason 1500 1

 

Facebook athugasemdir