Frábær Polar Pelagic-hátíð Hróksins: Með gleðina að leiðarljósi á Grænlandi

3Hrókurinn hefur undanfarna viku staðið fyrir Polar Pelagic-skákhátíðinni á Austur-Grænlandi. Hátíðin markaði upphafið að þrettánda starfsári Hróksins hjá okkar næstu nágrönnum en félagið stóð fyrir fyrsta alþjóðlega skákmótinu í sögu Grænlands í Qaqortoq 2003 og hefur síðan farið um 50 ferðir til að útbreiða fagnaðarerindi skáklistarinnar og vináttunnar.

Hátíðin hófst í Kulusuk fyrir viku. Kulusuk er næsti nágrannabær Íslendinga og eru íbúar þar tæplega 300. Hvert einasta barn í þorpinu tók þátt í skákveislunni, og kunnu langflest mannganginn og rúmlega það eftir fjölmargar heimsóknir Hróksmanna á liðnum árum. Jafnframt var leikskólinn í þorpinu heimsóttur og fengu börnin þar góðar gjafir úr fatasöfnun Hróksins, sem efnt var til síðasta haust í þágu barna á Austur-Grænlandi.

5Um helgina fóru leiðangursmenn til Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands með liðlega 2000 íbúa. Þar voru þrjú athvörf og heimili fyrir börn heimsótt og voru góðar gjafir með í farangrinum. Á þriðjudag var svo skákveisla í grunnskólanum þar sem tugir barna spreyttu sig. Þá brugðu Hróksmenn sér í hundasleðaferð út á ísinn þar sem tækifærið var að sjálfsögðu notað til að slá upp léttu skákmóti!

Leiðangursmenn Hróksins í þessari vel heppnuðu hátíð voru Róbert Lagerman varaforseti félagsins, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt heiðursforseti Hróksins á Grænlandi og Jón Grétar Magnússon skákkennari og ljósmyndari.

Helstu bakhjarlar hátíðarinnar voru grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic, sem er að þriðjungi í eigu Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, Flugfélag Íslands, TELE-POST á Grænlandi, Nói Síríus, HENSON, Ísspor, Landsbankinn, 12 tónar og fleiri fyrirtæki og einstaklingar sem gáfu vinninga og gjafir, auk þess sem fjölmargir heimamenn í Kulusuk og Tasiilaq lögðu leiðangursmönnum lið.

Kjörorð leiðangursins voru ,,Með gleðina að leiðarljósi“ og er óhætt að segja að þau hafi hitt beint í mark.

Hrókurinn á Facebook:

Facebook athugasemdir