Fötum og skóm safnað fyrir börn í afskekktasta þorpi Grænlands: Sýnum vináttu í verki!

DSC_0068Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins hafa sett að af stað söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn og ungmenni í Ittoqqortoormiit, í samráði við skólastjórnendur og aðra vini í þessu litla grænlenska þorpi. Hrókurinn hefur heimsótt þorpið, sem er þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli, síðustu átta árin, haldið skákhátíðir og dreift gjöfum frá Íslandi. Tekið verður við fatnaði á skrifstofu Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, Reykjavík. Þá munu nemendur í nokkrum grunnskólum taka þátt í söfnuninni, auk þess sem leitað er til einstaklinga og fyrirtækja. Búið er að stofna hóp á Facebook og eru undirtektir frábærar.

Afskekktasta þorp Grænlands heitir Ittoqqortoormiit. Það er á austurströndinni, á 70. breiddargráðu, næstum þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli. Íbúar eru á fimmta hundrað, þar af 110 börn undir 16 ára aldri. Þetta litla þorp skipar stóran sess í hjörtum okkar Hróksmanna. Þangað höfum við farið 8 sinnum á jafnmörgum árum og haldið páska-skákhátíðir fyrir börnin, með góðra manna hjálp.

DSC_0239Íbúar Ittoqqortoormiit eru ekki ríkir í veraldlegum skilningi, en að sami skapi auðugir þegar kemur að ljúfmennsku, gestrisni og hjartagæsku.

Nú er vetur að ganga í garð, þarna lengst fyrir norðan. Við Hróksmenn höfum ákveðið, í samráði við skólastjórnendur og fleiri vini í litla þorpinu, að efna til söfnunar á fötum og skóm fyrir börnin í bænum.

Við biðlum til allra sem vettlingi valda (bókstaflega!) að taka þátt í þessu góða og gefandi verkefni. Samkvæmt upplýsingum frá Peter Mønster skólastjóra er mest þörf fyrir: Vetrarfatnað, kuldastígvél, íþróttaskó og íþróttaföt fyrir leikfimitímana, og yfirhöfuð allskyns föt á börn allt að 16 ára aldri.

Aldursskipting barnanna í bænum er þessi:

20-3 ára: 30 börn.
4-8 ára: 30 börn.
9-11 ára: 25 börn.
12-15 ára: 25 börn.

Það er gaman að segja frá því að tveir grunnskólar í Reykjavík hafa þegar ákveðið að taka þátt í þessu með okkur. Við leitum eftir nýjum eða óslitnum og hreinum fatnaði.

Allir vinir barna á Grænlandi, sem vilja leggja þessu lið með einum eða öðrum hætti, eru hér með beðnir um að senda skilaboð gegnum Facebook-hóp söfnunarinnar, eða með tölvupósti í hrokurinn@gmail.com.

Munum, að við erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna!

Og — eins og Jonathan Motzfeldt sagði — SAMAN ERUM VIÐ STERKARI!

 

 

Facebook athugasemdir