Guðni Th. Jóhannesson verður heiðursgestur á jólahátíð Hróksins. Hann tók þátt í skákmaraþoni félagsins á árinu í þágu sýrlenskra flóttabarna.

Forsetinn heiðursgestur á fjölbreyttri jólahátíð Hróksins á laugardaginn

Vinátta. Hrókurinn leggur áherslu á að rækta tengsl Íslands og Grænlands á sem flestum sviðum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands verður heiðursgestur á Jólahátíð Hróksins, sem haldin verður laugardaginn 17. desember milli klukkan 14 og 17 í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11, við Reykjavíkurhöfn. Fjölbreytt dagskrá verður í höfuðstöðvum Hróksins, sem alla jafnan eru einkum notaðar sem miðstöð fatasöfnunar í þágu grænlenskra barna og ungmenna.

Bjartmar Guðlaugsson rithöfundur og tónlistarmaður, Jóhannes Kristjánsson eftirherma og Linda Guðmundsdóttir harmónikkuleikari frá Finnbogastöðum munu skemmta gestum, Gáttaþefur rekur inn nefið og Stekkjarstaur teflir við gesti og gangandi. Þá verður myndasýning frá starfi Hróksins á Íslandi og Grænlandi, og margt áhugavert á boðstólum á bóka- og flóamarkaði í þágu starfs Hróksins. Gómsætar vöfflur og kökur og rjúkandi kakó verða líka í boði. Þar munu konur úr prjónahópi Gerðubergs standa vaktina, en þær eru mjög virkar í starfi Hróksins.

Konurnar í prjónahópi Gerðubergs eru virkar í starfi Hróksins, og útbjuggu m.a. jólapakka til allra barna í Kulusuk.

Starfsárið hefur verið sérlega skemmtilegt og fjölbreytt hjá Hróknum. Liðsmenn félagsins hafa farið sex sinnum til Grænlands og haldið fjölmargar hátíðir til að útbreiða skák, gleði og vináttu. Þá hafa fjölmargir sjálfboðaliðar unnið við fatasöfnunina fyrir grænlensku börnin, og Kalak og Hrókurinn stóðu í haust að heimsókn 11 ára barna frá Austur-Grænlandi 11. árið í röð, sem hingað komu til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Starfið á heimavelli hefur ekki verið síður fjölbreytt. Hróksmenn hafa heimsótt Barnaspítala Hringsins flesta fimmtudaga, en þær heimsóknir hófust árið 2003 og hafa skapað óteljandi gleðistundir. Þá vinna Hróksmenn náið með Vinaskákfélaginu að því að efla skákiðkun meðal fólks með geðraskanir og má segja að þessi tvö verkefni standi hjörtum liðsmanna Hróksins næst. Að auki hefur félagið efnt til fjölda viðburða fyrir unga sem aldna og í vor söfnuðu Hróksmenn 3 milljónum króna í þágu sýrlenskra flóttabarna.

Liðsmenn Hróksins starfa í anda einkunnarorðanna ,,Við erum ein fjölskylda“ og vonast til að sem allra flestir leggi leið sína á jólahátíðina á laugardaginn.

Facebook athugasemdir