
Gróa Ásgeirsdóttir frá Flugfélagi Íslands, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Jóhann Hjartarson, stigahæsti skákmaður Íslands.
Fimm stigahæstu skákmenn Íslands voru meðal keppenda á fyrsta hraðskákmótinu í Flugfélagssyrpu Hróksins. Keppendur voru alls 26, þar af sex stórmeistarar. Héðinn Steingrímsson (2536 skákstig) sigraði með glæsibrag, hlaut 5 vinninga af 5 mögulegum. Næstur kom Hjörvar Steinn Grétarsson (2548) með 4,5 vinning og í 3. sæti varð Helgi Ólafsson (2543) með 4 vinninga.
Flugfélagssyrpan er haldin í Pakkhúsi Hróksins, í vöruskemmu Brims hf. við Geirsgötu. Þar eru höfuðstöðvar fatasöfnunar Hróksins og félaga fyrir börn á Austur-Grænlandi, og leggur Brim fram húsnæðið í þágu málstaðarins. Pakkhúsið er jafnframt frábær skákstaður, eins og glögglega kom í ljós þegar Flugfélagssyrpan hófst í dag.

Ný ríkisstjórn? Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Össur Skarhéðinsson fv. utanríkisráðherra heilsuðust með virktum.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Össur Skarhéðinsson fv. utanríkisráðherra voru sérlegir gestir við setningu Flugfélagssyrpunnar, en þeir eiga meðal annars sameiginlegt að vera hollvinir skákíþróttarinnar og að hafa taflsett á skrifstofunni.
Hrafn Jökulsson forseti Hróksins bauð gesti og keppendur velkomna, og þakkaði öllum sem lagt hafa sitt af mörkum í fatasöfnunina. Hann þakkaði starfsfólki Flugfélags Íslands frábæra samvinnu í næstum 12 ár við að útbreiða skák á Grænlandi. Flugfélagið, sem er með áætlunarflug til fjögurra staða á Grænlandi, hefur auk þess komið að fjölmörgum samfélagslegum verkefnum á Grænlandi í samvinnu við Hrókinn og önnur félagasamtök og einstaklinga.
Gróa Ásgeirsdóttir frá Flugfélagi Íslands lék fyrsta leikinn í skák Jóhanns Hjartarsonar (2571) við Gunnar Frey Rúnarsson (2078) og dugði sá leikur stórmeistaranum til sigurs.

Hláturinn lengir lífið. Helgi Ólafsson og Héðinn Steingrímsson slá á létta strengi. Héðinn var í ógnarformi og fékk 5 vinninga í 5 skákum.
Héðinn Steingrímsson gaf engin grið á mótinu og lagði alla andstæðinga sína. Hann er þar með efstur í Flugfélagssyrpunni, en framundan eru spennandi hádegismót, næstu fjóra föstudaga. Aðalvinningur er glæsilegur: Ferð fyrir 2 til Grænlands. Þá verður stálheppinn keppandi dreginn út sem sömuleiðis fær ferð fyrir 2 til Grænlands.
Skákfjörið í Pakkhúsi Hróksins heldur áfram um helgina. Á laugardag klukkan 14 teflir Jóhann Hjartarson fjöltefli við félaga úr skákdeild eldri borgara og ungmenni úrvalsliðs Björns Ívars Karlssonar skákkennara. Klukkan 15 mun tónsnillingurinn og skákáhugamaðurinn KK troða upp.
[slideshow_deploy id=’2797′]
Samhliða skák- og tónlistarveislu verður tekið við fatnaði í söfnun Hróksins fyrir börn á Austur-Grænlandi. Óskað er eftir hreinum og óslitnum fatnaði á börn á aldrinum 0-15 ára. Beðið er um hverskyns fatnað: útiföt, hversdagsföt, spariföt, íþróttaföt, kuldaskó, íþróttaskó — yfirhöfuð allsskonar föt og skó sem börn og unglingar þarfnast.

Eitt sterkasta hraðskákmót ársins. Aðstaðan sem Brim lætur Hróknum í té fyrir fatasöfnun nýtist í sögulega skák- og menningarviðburði!
Söfnun Hróksins teygir sig nú vítt og breitt um landið, og taka 12 grunnskólar þátt í verkefninu. Í skólunum er víðast hvar tækifærið notað og Grænland sett á dagskrá. Hver skóli um sig skipuleggur sjálfstæða söfnun og Grænlandskynningu, sem getur tengst landafræði, samfélagsfræði, sögu, náttúrufræði og dönsku, svo dæmi séu tekin.
Hrókurinn hvetur fólk til að líta við í Pakkhúsinu við Reykjavíkurhöfn um helgina. Pakkhúsið er í vöruskemmu Brims, Geirsgötu 11, þar sem áður var heildverslun Jóns Ásbjörnssonar. Fánaborg vísar veginn!
Tekið er við góðum fréttum og hugmyndum í netfanginu hrokurinn@gmail.com.
Flugfélagssyrpa Hróksins | 1. mót | 12.sep.14 | ||||
Sæti | Skákstig | Vinningar | Tiebreak | |||
1 | Héðinn Steingrímsson | 2536 | 5 | 8 | 12,5 | 15 |
2 | Hjörvar Steinn Grétarsson | 2543 | 4,5 | 8,5 | 14 | 13,5 |
3 | Helgi Ólafsson | 2543 | 4 | 9 | 17 | 13 |
4-5 | Helgi Áss Grétarsson | 2466 | 3,5 | 10 | 16 | 12,5 |
Bjarni Hjartarson | 2000 | 3,5 | 7 | 11,5 | 10 | |
6 – 12 | Hannes Hlífar Stefánsson | 2549 | 3 | 10,5 | 17,5 | 11 |
Jóhann Hjartarson | 2571 | 3 | 9,5 | 16 | 10 | |
Dagur Arngrímsson | 2398 | 3 | 8 | 14 | 10 | |
Guðmundur Kjartansson | 2438 | 3 | 7,5 | 13 | 9 | |
Örn Leó Jóhannsson | 2000 | 3 | 7,5 | 12,5 | 9,5 | |
Ingi Tandri Traustason | 1875 | 3 | 6 | 11,5 | 8 | |
Róbert Lagerman | 2305 | 3 | 5,5 | 10 | 9 | |
13 – 15 | Jón Þorvaldsson | 2165 | 2,5 | 7,5 | 12,5 | 8,5 |
Guðfinnur Kartansson Rósinkranz | 1989 | 2,5 | 7 | 11,5 | 6,5 | |
Gunnar Freyr Rúnarsson | 2078 | 2,5 | 6,5 | 10,5 | 6 | |
16 – 21 | Jóhann Ingvarsson | 2150 | 2 | 8 | 12 | 7,5 |
Gauti Páll Jónsson | 1719 | 2 | 7,5 | 10,5 | 4,5 | |
Bragi Halldórsson | 2198 | 2 | 7 | 11,5 | 7 | |
Vignir Vatnar stefánsson | 2070 | 2 | 7 | 10,5 | 6 | |
Kristján Stefánsson | 1678 | 2 | 7 | 10,5 | 4 | |
Hjálmar Sigurvaldsson | 1506 | 2 | 5,5 | 8,5 | , | |
22 | Sveinbjörn Jónsson | 1852 | 1,5 | 7 | 12 | 2,5 |
23 – 25 | Guðmundur Gunnlaugsson | 1500 | 1 | 7,5 | 14,5 | 5 |
Hörður Aron Hauksson | 1750 | 1 | 6 | 10,5 | 3 | |
Hörður Jónasson | 1570 | 1 | 5,5 | 9,5 | 2 | |
26 | Finnur Kr. Finnsson | 1562 | 0 | 6 | 10 | 0 |