Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk: Frábær skákveisla í höfuðborg Grænlands 

1Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk stendur nú sem hæst og er óhætt að segja að höfuðborg Grænlands iði af skáklífi. Samhliða skákviðburðum hafa liðsmenn Hróksins heimsótt skóla, athvörf og heimili fyrir börn með mikið af vönduðum og góðum fatnaði og öðrum gjöfum. Á föstudag var gengið frá því að Polar Seafood, stærsta fyrirtæki Grænlands, verður bakhjarl hátíðar á austurströndinni í ársbyrjun 2016.

Þetta er þriðja ferð Hróksmanna til Grænlands á þessu ári, en alls hafa Hróksmenn farið um 50 sinnum til Grænlands til að útbreiða skákíþróttina og stuðla að auknum tengslum og vináttu og grannþjóðanna á sem flestum sviðum.

2Flugfélagshátíðin hófst á þriðjudaginn og á föstudag var fjöltefli í Nuuk Center, verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar. Þar tefldu Róbert Lagerman, Omar Salama og Hrafn Jökulsson um 80 skákir gegn heimamönnum á öllum aldri. Ásamt þeim eru í föruneyti Hróksins Arnljótur Sigurðarson, Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, Jón Grétar Magnússon, Jökull Jónsson og Margrét Pála Ólafsdóttir. Þau hafa notið ómetanlegrar liðveislu Kristjönu Guðmundsdóttur Motzfeldt, Péturs Ásgeirssonar sendiherra og Jóhönnu Gunnarsdóttur konu hans, auk félaga úr hinu vaska skákfélagi Nuuk.

Á laugardag verður Flugfélagsmótið 2015 haldið í Nuuk Center og má búast við mjög spennandi keppni. Áhugi á skák hefur vaxið mjög í höfuðborginni á síðustu árum, eftir fjölmargar heimsóknir Hróksmanna.

5Í frétt frá Hróknum kemur fram að á föstudag hittu fulltrúar félagsins Henrik Leth, formann Samtaka atvinnulífsins á Grænlandi og stjórnarformann Polar Seafood, sem er stærsta fyrirtæki Grænlands. Polar Seafood stóð ásamt Síldarvinnslunni á Neskaupstað að frábærri skákveislu á Austur-Grænlandi í febrúar, og á fundinum í dag var ákveðið að endurtaka leikinn í ársbyrjun 2016.

Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt Hróknum lið við Flugfélagshátíðina í Nuuk. Helstu bakhjarlar eru FÍ, Kjarnafæði, Nói Síríus, HENSON, Ísspor, MS, Grænn markaður, Nuuk Center, Sögur útgáfa o.fl. Þá sendi hinn kraftmikli prjónahópur Rauða krossins í Reykjavík höfðinglega gjöf og Guðjón Kristinsson frá Dröngum lagði til listaverk sem afhent verður á laugardag við hátíðlega athöfn.

Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk lýkur á þriðjudaginn og er hægt að fylgjast með gangi mála á Facebook-síðu Hróksins.

Myndagallerí – Smella á myndir til að stækka

Facebook athugasemdir

Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk stendur nú sem hæst og er óhætt að segja að höfuðborg Grænlands iði af skáklífi. Samhliða skákviðburðum hafa liðsmenn Hróksins heimsótt skóla, athvörf og heimili fyrir börn með mikið af vönduðum og góðum fatnaði og öðrum gjöfum. Á föstudag var gengið frá því að Polar Seafood, stærsta fyrirtæki Grænlands, verður bakhjarl hátíðar á austurströndinni í ársbyrjun 2016. Þetta er þriðja ferð Hróksmanna til Grænlands á þessu ári, en alls hafa Hróksmenn farið um 50 sinnum til Grænlands til að útbreiða skákíþróttina og stuðla að auknum tengslum og vináttu og grannþjóðanna á sem flestum sviðum. Flugfélagshátíðin hófst…

Stjörnugjöf

Stjörnugjöf lesenda: 4.9 ( 1 atkvæði)