Árni Gunnarsson forstjóri FÍ, Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Gróa Ásgeirsdóttir verkefnastjóri FÍ. Flugfélag Íslands hefur verið aðalbakhjarl skáklandnámsins á Grænlandi frá upphafi árið 2003.

Flugfélagshátíð Hróksins í Kulusuk: Með gleði og vináttu að leiðarljósi

Hrókurinn efnir til Flugfélagshátíðar í Kulusuk dagana 31. ágúst til 2. september. Þetta er fimmti leiðangur Hróksins til Grænlands á þessu ári, og önnur hátíðin á árinu sem efnt er til í Kulusuk, sem er næsti nágrannabær Íslendinga. Yfirskrift hátíðarinnar er: Með gleði og vináttu að leiðarljósi.

Á hátíðinni hefst dreifing á 300 taflsettum sem Flugfélag Íslands leggur Hróknum til í gjafir handa börnum og ungmennum á Grænlandi og 100 til viðbótar sem einstaklingar leggja til. Þar með hefur FÍ lagt til 600 taflsett í skáklandnámið, en alls hefur Hrókurinn dreift vel yfir 2000 skáksettum á Grænlandi. Hróksmenn færðu í vikunni FÍ örlítinn þakklætisvott fyrir órofa stuðning og frábæra samvinnu síðan ævintýrið á Grænlandi hófst árið 2003.

Íbúar í Kulusuk eru um 270 og miðpunktur hátíðarinnar verður í barnaskóla þorpsins. Liðsmenn Hróksins munu kenna skák, efna til fjöltefla og halda meistaramót skólans. Leikskólinn í þorpinu verður líka heimsóttur og börnin þar fá gjafir frá Íslandi. Þá verður haldin sýning á myndum sem stúlkur í 1. bekk Barnaskólans í Reykjavík gerðu af þessu tilefni og samhliða efnt til myndlistarkeppni meðal barnanna í Kulusuk. Í tengslum við hátíðina munu listamenn í Kulusuk svo slá upp stórtónleikum fyrir gesti og heimamenn.

Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman, Hrafn Jökulsson og Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir. Aðalbakhjarl hátíðarinnar er Flugfélag Íslands, sem stutt hefur skáklandnám Hróksins á Grænlandi frá upphafi, árið 2003. Fjölmörg fyrirtæki gefa vinninga, verðlaun og gjafir: FÍ, Nói Síríus, HENSON, Ísspor, Kjarnafæði, Hjallastefnan, Veitingahúsið Einar Ben og Penninn, og eiga allir þátttakendur í hátíðinni von á glaðningi á Flugfélagshátíð Hróksins í Kulusuk 2015.

Hrókurinn þakkar öllum sem lagt hafa lið við undirbúning hátíðarinnar. Hægt verður að fylgjast með á Facebook-síðu Hróksins og heimasíðu félagsins, hrokurinn.is.

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í Kulusuk i febrúar 2015, þegar Hróksmenn voru síðast á ferð í þorpinu.

Facebook athugasemdir