Flugeldasýning Kínverja í Tromsö! Ofursveit Rússa úr leik — Íslendingar á sigurbraut

wang-yue--china

Kínverjar gera sig líklega til að vinna gullið í opnum flokki.

Kínversku snillingarnir halda áfram að fara á kostum í Tromsö: Í áttundu umferð lögðu þeir Azera 3-1 og hrifsuðu þannig af þeim efsta sætið, þegar þrjár umferðir af 11 eru eftir. Íslendingar héldu  áfram á sigurbraut, lögðu Skota 3-1, og eru í 22. sæti af tæplega 180 keppnissveitum.

Kína er í efsta sæti með 14 stig af 16 mögulegum, eftir 8 umferðir. Fimm sveitir koma næstar með 13 stig: Frakkland, Úkraína, Azerbæjan, Tékkland og Rúmenía.

Ríkjandi Ólympíumeistarar Armena eru í 14. sæti með 12 stig.

Enn meiri athygli vekur þó að sveit Rússa, sú langstigahæsta á mótinu, dúsir nú í 19. sæti með 11 sig. Þeir eiga ekki möguleika á gullverðlaunum lengur — í 9. umferð tefla rússnesku ofurmeistararnir við B-sveit Noregs!

Úkraína hélt áfram á sigurbraut og vann Búlgaríu 2,5-1,5. Ivanchuk og Topalov gerðu jafntefli á 1. borði, og búlgarski meistarinn Cheparinov lagði Ponomariov á 2. borði. Eljanov og Korobov voru hetjur úkraínska liðsins, en þeir sigruðu á 3. og 4. borði. Eljanov sigraði Iovtov, sem þar með tapaði fyrstu skák sinni á mótinu. Úkraína er nú komin upp í 3. sæti mótsins.

norway

Magnús glaðbeittur fyrir upphaf umerðar í dag. Hann er búinn að jafna sig á tapinu í gær og muldi niður andstæðing dagsins.

Norðmenn mættu til leiks í vígahug eftir tapið gegn Þjóðverjum í 7. umferð. Þeir rúlluðu upp sterkri sveit Bosníumanna, 3-1. Carlsen tefldi við Predojevic með svörtu og sargaði hvítu stöðuna niður. Agdestein og Hammer sigruðu líka í sínum skákum, aðeins Lie spillti gleðinni með tapi á 4. borði.

Fórnarlamb heimsmeistarans í dag, Borki Predojevic, er 27 ára og ,,gamalt“ undrabarn. Hann varð Evrópumeistari 12 ára og yngri 1999 og 14 ára og yngri 2001. Hann varð heimsmeistari 16 ára og yngri 2003;  stórmeistari 17 ára.

Þetta var þriðja kappskák Carlsens og Predojevic. Þeir mættust tvisvar á stórmóti Bosna Sarajevo 2006. Aðra skákina vann Carlsen, hinni lauk með jafntefli. Á síðasta ári mættust Carlsen og Predojevic í 4ja skáka einvígi í atskák. Þar vann Carlsen eina skák, en þremur lauk með jafntefli.

shankland

Hinn nýútskrifaði Sam Shankland einbeitir sér eingöngu að skák þessa dagana. Vann Judit Polgar og hefur 7 vinninga af 7 mögulegum!

Norðmenn eiga ekki raunhæfa möguleika á verðlaunum, þrátt fyrir sigurinn á Bosníu, til þess hefur liðið trúlega tapað of mörgum stigum. Noregur hefur 11 stig og er í 24. sæti, eða tveimur sætum fyrir neðan Ísland…

Í öðrum toppslag gerðu Rúmenía og Tékkland 2-2 jafntefli. Sömu úrslit urðu hjá Þýskalandi og Kúbu, Indlandi og Armeníu, Ungverjalandi og Bandaríkjunum.

Bandaríkjamaðurinn Shankland sigraði hina miklu Judit Polgar og þar með hefur hann unnið í öllum 7 skákum sínum á mótinu! Hér í lokin birtum við lista yfir þá einstaklinga sem hafa náð bestum árangri í Tromsö og þar sést að árangur Shanklands jafngildir svakalega mörgum skákstigum….

Kramnik-in-Round-7

Vladimir Kramnik fv. heimsmeistari. er í öldudal. Eftir 2 töp í röð er hann dottinn af lista yfir 10 stigahæstu skákmenn heims. Það eru mikil undur og stórmerki.

Svo eru það veslings Rússarnir. Þeir höfðu þegar gert 2 jafntefli og tapað 1 viðureign. Sigur gegn Spáni var því afar mikilvægur fyrir langstigahæstu sveit mótsins. Kramnik kom nú aftur inn í liðið. Hann hvíldi í 7. umferð eftir tapið gegn Kasimdzhanov.

En Kramnik var greinilega ekki alveg búinn að jafna sig — hann mátti játa sig sigraðan með hvítu gegn Vallejo Pons eftir 40 leiki og var þá þremur peðum undir. Kramnik hefur tæpast vanmetið Vallejo Pons. Fyrir skák dagsins höfðu þeir teflt fimm kappskákir og jafntefli ávallt orðið niðurstaðan.

Karjakin náði vinningi í hús fyrir Rússa á 3. borði, en jafntefli varð í skákum Grischuks og Nepomniachtci. Og þar með varð jafntefli niðurstaðan í viðureign Rússlands og Spánar.

kina_memendyarov

Wang og Mamedyarov gerðu jafntefli á 1. borði þegar Kínverjar hrifstuðu efsta sætið af Azerum.

En víkjum aðeins að toppslagnum: Kína vs Aserbæjan. Wang (2718) tefldi nú aftur á 1. borði, en hann hvíldi á móti Serbum í 7. umferð. Andstæðingur hans var Mamedyarov (2743) sem náð hefur alla leið upp í 4. sæti heimslistans en er nú númer 18. Mamedyarov, sem er 29 ára, hefur teflt vel í Tromsö og meðal annars sigrað Frakkann Vachier-Lagrave (2784) og Georgíumanninn Jobava (2713). Hann tapaði hinsvegar fyrir skákkóngi Kúbu, Dominguez (2760).

Jafntefli var niðurstaðan í fremur andlausri skák Wang og  Mamedyarov, og sama var uppi á teningnum á 2. borði þar sem Ding (2742) mætti Radjabov (2724). Og úr því við vorum að tala um stöðu á heimslista: Í nóvember 2012 var Radjabov í 4. sæti heimslistans og kominn með heil 2793 stig.

Ding og Radjabov - Radjabov var eitt sinn einn af allra sterkustu skákmönnum heims.

Ding og Radjabov. Sá síðarnefndi hefur hrapað niður stigalistann. Var í 4. sæti heimslistans fyrir tæpum 2 árum en er dottinn niður í 27. sæti.

Næsta markmið var augljóst: Að komast yfir 2800 stiga múrinn — nokkuð sem aðeins örfáum og útvöldum hefur tekist. Radjabov, sem er fæddur 1987, varð stórmeistari aðeins 14 ára og Azerar litu á hann sem efni í heimsmeistara. En eitthvað gerðist í nóvember 2012: Radjabov byrjaði að tapa og tapa og tapa. Nú situr hann í 27. sæti heimslistans með 2724 stig. Múrinn mikli er nú óralangt í burtu.

Úrslitin í viðureign Kína og Azerbæjan réðust á neðri borðunum tveimur. Enn og aftur var Yu (2668) á skotskónum: tefldi bráðskemmtilega og sýndi óaðfinnanlega tækni gegn Safarli (2649) sem er 22 ára; heimsmeistari 10 ára og yngri 2002. Yu hefur nú fengið 7 vinninga í 8 skákum!

Á 4. borði virtist Guseinov (2613) líklegur til að jafna metin í viðureigninni, en Ni (2666) náði að snúa á Azerann og sigra. 3-1 fyrir Kína.

hjorvar

Hjörvar Steinn er með flesta vinninga Íslendinga enda taplaus, með 4 sigra og 3 jafntefli. Árangur sem samsvarar 2607 stigum.

Skotar reyndust Íslendingum ekki mikil hindrun. Hjörvar Steinn Grétarsson tefldi á 1. borði og sigraði stórmeistarann McNab (2441) í skák þar sem hvítt riddaralið hafði betur gegn svörtu biskupapari. Guðmundur Kjartansson þurfti að hafa talsvert fyrir jafntefli á 2. borði gegn Greet (2431) en á 3. borði sneri Þröstur Þórhallsson á Tate (2347). Á 4. borði gerði Helgi Ólafsson jafntefli við McKay (2349).

Í 9. umferð mæta Íslendingar sterkri sveit Katar, sem skipuð er stórmeisturum á þremur efstu borðum. Mjög mikilvæg viðureign því sigur getur fleytt íslensku sveitinni upp í toppbaráttuna í síðustu umferðunum. Við erum ekki að tala um verðlaunasæti, en það væri góður árangur að enda meðal tuttugu efstu…

Fleiri úrslit úr 8. umferð? Palestína vann Fiji-eyjar, Sýrland gjörsigraði Trinidad og Tobago, en Úganda og Mónakó gerðu jafntefli.

Svíþjóð vann Japan 3-1. Grandelius, Hillarp Persson og Berg unnu, en Tikkanen (2559) tapaði fyrir Watanabe (2252).

Danir jörðuðu C-sveit Noregs, 4-0, og Finnar gengu frá Sri Lanka með sömu markatölu.

B-sveit Noregs lagði vaska Marokkó-menn, þar sem 3 skákum lyktaði með jafntefli.

faereyjingar

Færeyskir frændur: Helgi Dam Ziska, Olaf Berg, John Rodgaard og Høgni Egilstoft Nielsen.

Vinir okkar Færeyingar börðust við Jemena og þar þurfti ekki um sárt að binda, öllum skákunum lauk með sigri hvíts.  Ziska (2507) besti skákmaður í sögu Færeyja tapaði fyrir mun stigalægri skákmanni og Berg tapaði á 3. borði. Alþjóðameistaranir Rodgaard (2361) og Nilssen (2322) sigruðu í sínum skákum. Niðurstaðan því jafntefli, 2-2.

Kvennaliðið okkar tapaði fyrir Tékkum. Þar náðist aðeins hálfur vinningur í hús: Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir gerði jafntefli við mun stigahærri andstæðing en þær Lenka Ptacnikova, Tinna Kristín Finnbogadóttir og Elsa María Kristínardóttir töpuðu. Kvennaliðið er nú í 71. sæti af 136.

Rússneska kvennasveitin virðist óstöðvandi. Í áttundu umferð mættu rússnesku stúlkurnar sterkri sveit Ungverjalands og unnu stórsigur, 3,5-0,5.

Kínverska sveitin, sem tapaði í 7. umferð fyrir Rússum, er aftur komin á beinu brautina. Hou Yifan (2661) sigraði Socko (2470) á 1. borði og Guo (2453) landaði öðrum kínverskum vinningi á 4. borði, en þær Ju (2559) og Zhao (2508) gerðu jafntefli í skákum sínum á 2. og 3. borði.

Here is our full team, with 3 Grandmaster coaches Evgeniy Najer (2646), Alexander Riazantsev (2678) and Sergei Rublevsky (2698):

Kvennalið Rússlands er með þrjá þjálfara: Evgeniy Najer (2646), Alexander Riazantsev (2678) og Sergei Rublevsky (2698). Rússland er næstum öruggt um gullið í kvennaflokki.

Ekkert nema beint inngrip Caissu getur nú komið í veg fyrir að Rússland verði sigurvegari í kvennaflokki á 41. Ólympíuskákmótinu í Tromsö. Liðið hefur sigrað í öllum 8 viðureignum sínum til þessa. Armenía er á matseðlinum í 9. umferð.

En hverjir hafa staðið sig best í Tromsö?

Sam Shankland er sem sagt búinn að vinna allar 7 skákir sínar, nú síðast Judit Polgar. Árangur hans jafngildir heilum 3196 skákstigum. Í öðru sæti er ungi kínverski meistarinn Yu sem hefur 7 vinninga af 8, sem er árangur upp á 2914. Gamla brýnið Michael Adams er kominn upp í 3. sætið með 2888 en vinur okkar frá Palestínu, Christian D. Michael Yuris er í 4. sætinu. Hann hefur teflt 6 skákir með palestínska liðinu og unnið allar.

Anish Giri hefur staðið sig með sóma á 1. borði Hollands og árangur hans jafngildir 2849, síðan kemur hinn ljónheppni Dmitry Svetushkin frá Moldovu með árangur upp á 2846, enda hefur hann fengið 6,5 vinning í 7 skákum.

Jæja, þá eru aðeins þrjár umferðir eftir. Hápunkturinn nálgast!

Og hér skal enn og aftur veðjað á Kína…

 

Facebook athugasemdir