Evrópukeppni Taflfélaga hefst á morgun

Samfara stórmótinu í Bilbao fer fram Evrópukeppni Taflfélaga í þrítugasta sinn. Mótið er ávallt mjög sterkt og má í raun segja að flestir af topp 50 skákmönnum í heiminum séu samankomnir í Bilbao. Evrópukeppnin mun fara fram dagana 14-20. september.

Meðal þeirra sem eru mættir til leiks á EM eru Fabiano Caruana (#2), Alexander Grischuk (#4) og Veselin Topalov (#5) svo einhverjir séu nefndir. Í raun vantar bara Magnus Carlsen til Bilbao en hann kaus að einbeita sér að undirbúningi fyrir komandi Heimsmeistaraeinvígi.

Alls má búast við um 400 keppendum í 61 sveitum frá 29 löndum! Sveitir SOCAR frá Azerbaijan og Malakhite frá Rússlandi eru talin með þeim sterkari en í fyrra vann sveit frá Tékklandi, G-Team Novy Bor,  óvæntan sigur. Obiettivo Risarcimento frá Ítalíu verður einnig að teljast líkleg til afreka með þá Caruana, Nakamura og Vahcier-Lagrave innanborðs.

Þröstur verður á sínum stað

Þröstur verður á sínum stað

Ísland á fulltrúa á mótinu en sveit Hugins er mætt til leiks og er skipuð þeim Gawain Jones, Robin Van Kampen, Þresti Þórhallssyni, Einari Hjalta Jenssyni, Hlíðari Þór Hreinssyni og Magnúsi Teitssyni. Liðsstjóri og varamaður er svo Vigfús Óðinn Vigfússon.

Evrópukeppni Taflfélaga er meistarakeppni Taflfélaga í Evrópu og tvö til þrjú lið hafa að jafnaði keppnisrétt frá hverju landi.

Facebook athugasemdir