Er Magnús Carlsen að lenda í sömu stöðu og Fischer árið 1992? – Viðskiptaþvinganir gætu komið í veg fyrir að hann haldi titlinum!

Hrókurinn heldur áfram að rýna í stöðuna sem upp er komin í samskiptum Magnúsar Carlsen og Alþjóðaskáksambandsins FIDE.

Nikolayevich Tkachyov sætir viðskiptaþvingunum af hálfu ESB, Noregs og fleiri vestrænna ríkja.

Nikolayevich Tkachyov sætir viðskiptaþvingunum af hálfu ESB, Noregs og fleiri vestrænna ríkja.

Áður hefur komið fram að Magnús hefur frest til föstudags til þess að undirrita samning vegna heimsmeistaraeinvígisins sem á að hefjast þann 7. nóvember í Sochi í Rússlandi. Þá hefur komið fram að Espen Agdestein, umboðsmaður Magnúsar hefur í tvígang óskað eftir frestun einvígisins af ýmsum ástæðum. Ástandið í Úkraínu og viðskiptaþvinganir í kjölfar þess, 50% lækkun á verðlaunafé frá síðasta einvígi og fleira.

Þá hefur verið nefnt að óljóst sé hver styrktaraðili einvígissins er og hvort hann hafi greitt verðlaunaféð, en Espen Agdestein segist engar upplýsingar fá frá FIDE um styrktaraðilann og að staðfesting á greiðslu verðlaunafjársins liggi ekki fyrir. Þrátt fyrir þetta krefst FIDE að samningurinn verði undirritaður fyrir lok vikunnar ellegar verði gengið framhjá Magnúsi og Sergey Karjakin tefli við Anand.

NRK greini frá því í gær að staðan sé orðin mjög erfið fyrir Magnús og félaga og telur líkur á að hann muni ekki skrifa undir. Þá eru líkur taldar á að slík niðurstaða yrði til þess að skákheimar klofni í herðar niður í kjölfarið.

Capture

Krímskagi – Borgin Sochi er neðst til hægri á kortinu

Talið er að Fylkisstjórinn Alexander Nikolayevich Tkachyov sem sagður er vera styrktaraðili mótsins sé ein stærsta hindrun þess að Magnús undirriti samning um að tefla í Sochi.

Alexander Nikolayevich Tkachyov er Fylkissjóri í Krasnordar Krai suðvestur Rússlandi, en fylkið á landamæri að hinum umdeilda Krímskaga sem Rússar hertóku og innlimuðu síðan í svonefndum „kosningum“.  Tkachyov er eindreginn stuðningsmaður Pútíns Rússlandsforseta og uppreisnarmanna í Úkraínu og tekur beinan þátt í átökunum sem nú eiga sér stað í Úkraínu. Fyrir vikið var hann settur á lista einstaklinga sem sæta viðskiptaþvingunum af hálfu ESB og annarra vestrænna ríkja, þ.m.t. Noregs. Ólympíuborgin Sochi er einmitt í Krasnordar.

Bobby-Fischer-in-1992

Fischer tefldi einvígi við Boris Spassky árið 1992 og var eftirlýstur í kjölfarið.

Sérfræðingar NRK telja jafnvel að um pólitískan leik sé að ræða að halda Heimsmeistaraeinvígið í Sochi. Rússar sjái sér leik á borði að draga þangað vestrænan skákheimsmeistara og að í því felist stuðningur við aðgerðir Rússa í Úkraínu. Það er eitthvað sem Magnús Carlsen kærir sig alls ekki um að vera þekktur fyrir.

Skemmst er að minnast þess hvernig fór fyrir Bobby Fischer þegar hann virti að vettugi alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Júgóslavíu og tefldi „heimsmeistaraeinvígi“ við Spassky í Svetli Stefan árið 1992 og var fyrir vikið eftirlýstur af Bandaríkjunum.

Espen Agdestein og Magnús Carlsen hyggjast ekki lenda í sömu stöðu og Fischer og hafa því verið í sambandi við norska Utanríkisráðuneytið vegna einvígisins.

Þrátt fyrir viðskiptabann þá hafa íþróttaviðburðir ekki talist til atvika sem undir það falla, a.m.k. að svo stöddu, en það að taka við fjármunum í formi verðlaunafés frá manni sem sætir viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja, ESB og Noregs er talið vera á afar gráu svæði.

Af þessu má vera ljóst að ákvörðunin sem Carlsen og félagar þurfa að taka er afar erfið og jafnvel útilokað að hann geti teflt í Sochi.

Viswanathan Anand er hins vegar öllu rólegri yfir ástandinu og hefur undirritað samning um einvígið. Viðskiptaþvinganir hafa engin áhrif á hann því að Indland tekur ekki þátt í aðgerðum vesturvelda gegn Rússlandi.

Facebook athugasemdir