Elsta varðveitta skák íslenskrar skáksögu: Læknir leggur gullsmið

Á síðari hluta 19. aldar var Þorvaldur Jónsson (1837-1916)  læknir besti skákmaður Íslands. Hann bjó á Ísafirði og beitti sér fyrir stofnun taflfélags á staðnum haustið 1901. Frá því segir í skemmtilegri grein sem lesa má hér. Þorvaldur skrifaðist á við Willard Fiske (1831-1904)  einhvern besta og kærleiksríkasta vin sem Ísland hefur átt. Læknir á Ísafirði skrifar Fiske í Flórens um aldamótin 1900:

,,Um árið 1850 fór ég að fást við skák, og kynntist helztu skákmönnum í Reykjavík þar til 1863, að ég fluttist hingað vestur. (Á þessu tímabili ruddu hinar útlendu skákreglur sér til rúms hjá flestum, og skák var þá talsvert iðkuð í Reykjavík, bæði meðal eldri og yngri, einkum stúdenta og skólapilta í húsi föður míns, Jóns málaflutningamanns Guðmundssonar, þar sem margir þeirra voru daglegir gestir. Beztir skákmenn í þá tíð voru taldir í Reykjavík þeir bræður Pétur biskup og Jón yfirdómari Péturssynir og consul Smith.“

Skák hefur verið tefld á Íslandi í þúsund ár, en elsta skákin sem varðveist hefur var tefld árið 1892, að haustlagi á Ísafirði. Hvítt hafði Helgi Sigurgeirsson gullsmiður en Þorvaldur læknir svart. Þarna er kóngsbragði auðvitað beitt, og teflt í anda þeirrar rómantísku stefnu sem var að líða undir lok í Evrópu, en átti ennþá eftir að ná hámarki á Íslandi. Hvítur fórnar manni og ætlar að skunda í sókn, en læknirinn reynist vandanum vaxinn, og verst flumbrulegri sókn. Reyndar virðist gullsmiðurinn um hríð eiga vænleg sóknarfæri, en einnig þau renna út í sandinn.

Elsta varðveitta skák íslenskrar skáksögu, gjörið svo vel!

Facebook athugasemdir