Einfalt meistarastykki frá Troitsky

TroitzkyAlexey Alexeyvich Troitsky er talinn einn besti skákdæmahöfundur allra tíma. Það sem hægt er að læra af vel hönnuðum skákdæmum er virkni mannanna og gallar þeirra. Troitsky var í fremstu röð þegar kom að því að búa til skákdæmi með örfáum mönnum inni á borðinu en samt með hulinni snilld sem veldur jafnvel fremstu skákmönnum miklum heilabrotum.

Troitsky_1

Troitsky, 1895 – Hvítur leikur og vinnur

Hér er á ferðinni eitt af frægari dæmum Troitsky. Eins og áður sagði eru ekki margir menn á borðinu og forsendurnar í sjálfu sér einfaldar. Að jafnaði er hægt að gefa sér það að ef að hvítur tapar síðasta peðinu sínu að þá nægir ekki að eiga biskup eftir til að máta andstæðinginn.

Ég hvet þá sem vilja spreyta sig við þetta dæmi að reyna það en annars kemur lausnin hér að neðan. Hátturinn verður síðan þannig á að í skákdæmahorninu kemur stöðumynd neðst sem verður viðfangsefni næsta innleggs á horninu!

 

LAUSN:

 

Út frá þeirri forsendu að peðið megi ekki tapast þá eru fyrstu leikirnir þvingaðir.

1.Bh6+ Kg8 2.g7 Kf7

Troitsky_2

Eftir 2…Kf7

En hvað nú? Hvernig komum við hvíta kóngnum að? Ef við leikum 3.Ke5 fer kóngurinn til baka 3…Kg8 og 4.Ke6 er patt! Nú eru góð ráð dýr og hér brýtur Troitsky náttúrulögmál skákarinnar. Eins og ég sagði, á biskupinn að jafnaði ekki að duga til!

3.g8=D+!! Kxg8 4.Ke6

Troitsky_3

Eftir 4.Ke6!

Töfrum líkast, svartur á bara einn leik að setja kónginn í hornið. Þar verður hann umkringdur. Það væri í raun betra fyrir svartan að eiga engin peð, þá væri skákin jafntefli! Í þrautinni eru peðin einfaldlega fyrir og hjálpa hvítum að byggja mátnet.

4…Kh8 5.Kf7 e5 6.Bg7#

Troitsky_4

Lokastaða þrautarinnar

Allir hvítu mennirnir eru fullnýttir í lokastöðunni.

 

Ég skil ykkur eftir með aðra klassíska þraut frá Troitsky.. Lokastaðan í fyrri þrautinni er að mörgu leiti vísbending um það eftir hverju Troitsky er að leita með nýtni mannanna. Reynið við þessa!

 

Troitsky, 1897

Troitsky, 1897 – Hvítur leikur og vinnur

 

Facebook athugasemdir