Einar Hjalti lagði Shirov!

Shirov_PacoVallejo

Shirov (til vinstri) og Paco Vallejo (til hægri) áttu báðir erfiðan dag í Bilbao

Þau stórtíðindi voru að berast frá Evrópukeppni Taflfélaga að Einar Hjalti Jensson (2349) var að leggja að velli einn þekktasta stórmeistara samtímans, sjálfan Alexei Shirov (2701)!

Einar og félagar hjá Huginn voru að etja kappi við eina sterkustu sveit mótsins og virðast ætla að komast mjög virðulega frá þessari viðureign. Shirov á ekki að þurfa að kynna fyrir skákáhugamönnum en hann hefur verið einn þekkasti sóknarskákmaður seinni ára og var oft á tíðum líkt við samlanda sinn, Mikhail Tal.

Einar stýrði hvítu mönnunum og mætti óhræddur til leiks. Hann virðist hreinlega hafa yfirspilað lettneska meistarann úr stöðu sem var í jafnvægi. Shirov skildi eftir veikleika á hvítum reitum og tapaði mikilvægu peði á d-línunni sem gaf Einari hættulegt frípeð og yfirráð yfir sjöundu reitaröð andstæðings síns. Einar sleppti svo í framhaldinu einfaldlega ekki takinu og sigldi vinningnum í höfn örugglega!

Hjörvar hér ásamt greinarhöfundi við stúderingar á ÓL í Tromsö. Spurning hvort hann og Einar stofni klúbb Shirovs-bana

Hjörvar hér ásamt greinarhöfundi við stúderingar á ÓL í Tromsö. Spurning hvort hann og Einar stofni klúbb Shirovs-bana

Ljóst er að Shirov er ekki líklegur gestur á mótum á Íslandi á næstunni enda gengið illa með landann! Ekki er langt síðan Hjörvar Steinn Grétarsson kenndi honum lexíu og lagði hann einnig að velli en sú viðureign fór fram á Evrópukeppni Landsliða árið 2011. Í framhaldinu var ekki langt í stórmeistaratign Hjörvars og ekki ólíklegt að þessi sigur gefi Einar mikinn meðbyr í leit sinni að titlinum Alþjóðlegur Meistari.

Glæsilega gert hjá Einari en hann hefur bætt við elóstigafjölda sinn jafnt og þétt frá því hann hóf aftur skákiðkun eftir langt hlé. Einar var hluti af efnilegri kynslóð Íslendinga sem vann Ólympíumótið í skák fyrir 16 ára og yngri á sínum tíma. Hann náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli á Reykjavíkurskákmótinu 2012 og verður að teljast með líklegri mönnum að þeirri tign næstur Íslendinga.

Skákin fylgir að sjálfsögðu hér fyrir neðan (ásamt viðtali!):

Facebook athugasemdir