,,Ef þú kemur nálægt borðinu aftur kýli ég þig á helvítis kjaftinn!“

Bandaríski stórmeistarinn og William James Lombardy setti svo sannarlega svip á alþjóðlega skákmótið í Vestmannaeyjum 1985. Lombardy fæddist 1937 og var lærimeistari hins unga Bobby Fischers, sem var sex árum yngri. Árið 1957 vann Lombardy það ótrúlega afrek að sigra með fullu húsi á heimsmeistaramóti ungmenna í Toronto, vann allar ellefu skákir sínar! Hann leiddi bandarísku stúdentasveitina til glæsilegs sigurs á heimsmeistaramótinu í Leníngrad 1960. Þar fékk Lombardy 12 vinninga af 13 og lagði m.a. Boris Spassky — nokkuð sem Fischer tókst ekki fyrr en í Reykjavík tólf árum síðar.

Lombardy var útnefndur stórmeistari 1960 en dró úr skákiðkun, enda þokaði Caissa úr hásæti huga hans fyrir sjálfum guði almáttugum, og hann var vígður sem kaþólskur klerkur 1967. Hann hélt þó áfram að tefla og var einn helsti aðstoðarmaður Fischers í einvíginu 1972.

Lombardy fór prýðilega af stað í Vestmannaeyjum 1985 og var með fimm vinninga eftir sjö umferðir. Í áttundu umferð mætti hann hinum harðsnúna Ingvari Ásmundssyni í mikilli maraþonskák, og sú viðureign átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Lombardy lék illa af sér í 34. leik og Ingvar lét drottningu sína í skiptum fyrir hrók, riddara og tvö peð. Eftir 105 var staða hans gjörtöpuð, enda voru þá konungshjón hans ein eftir gegn óvígu liði Ingvars.

En sitthvað gekk á meðan skákin var tefld. Ungur og efnilegur Karl Þorsteins var meðal keppenda, og hann fylgdist grannt með fólkorustunni miklu milli Ingvars og Lombardys. Bandaríski stórmeistarinn lét Karl fara mjög í taugaranar á sér, og skipaði honum að færa sig burt frá borðinu, en Karl mun hafa sagt að sem keppandi á mótinu mætti hann vel fylgjast með.

Lombardy mun yfirleitt vera mesti rólyndismaður, en svo mjög mislíkaði honum við unga Íslendinginn að upp úr sauð á veitingastaðnum Skútanum skömmus síðar. Þá æpti Lombardy yfir allan salinn til Karls, að kæmi hann nálægt skákborði sínu aftur myndi  hann „kýla hann á helvítis kjaftinn!“ Karl bað Lombardy að endurtaka ummælin og það gerði guðsmaðurinn svikalaust, orð fyrir orð…

Vesalings Lombardy var nú kominn í svo mikið tilfinningalegt uppnám að hann mætti ekki til leiks í næstu umferð gegn Jóhanni Hjartarsyni. Það var sérlega bagalegt, því þar með missti Jóhann af möguleika á að næla í áfanga að stórmeistaratitli. Og það var víst ekki fyrren eftir óralangar samningaviðtæður sem Jóhanni Þóri Jónssyni, skipuleggjanda mótsins, tókst að dekstra hinn mislynda guðsmann til að ljúka mótinu.

Og einsog í góðum spennusögum var uppgjörið eftir — skák Lombardys og Karls Þorsteins. Sú viðureign var spennuþrunginn, vægast sagt, en ungi Íslendingurinn fullkomnaði óhamingju guðsmannsins með glæsilegum sigri. Sjón eru sögu ríkari!

Facebook athugasemdir