Drottningarfórn í Dallas

Hva,hvenær varst þú að tefla í Dallas Kári?..Ég hef aldrei vitað til þess að þú hafir teflt á alþjóðamóti!… Það er nefnilega saga að segja frá því þegar ég tefldi mínar einu skákir á ævinni í Bandaríkjunum…

 photo 1a6a1ca9.jpg

Víkingur Trausti Traustason

Í nóvember 1984 var ég ásamt Víkingi Traustasyni að fara keppa á Heimsmeistaramóti í kraftlyftingum í Dallas.Fyrst gistum við á Marriott hóteli þar sem fór fram fjölþjóða ráðstefna og öryggisverðir út um allt. Um 2 leytið um nóttina fóru hrikalega háværar viðvörunarbjöllur í gang og allir gestir reknir út í skítakulda og sumir fáklæddir. Það var haldið fyrst að um hryðjuverkaárás væri að ræða en síðar kom í ljós að það hafði kviknað í potti í eldhúsinu.Klassík!

Við fluttum okkur vegna þessa atburðar á Hótel Greenlefe. Það fór nú um hinar norrænu hetjur þegar við komum í andyrið á hótelinu eða lobbýið eins og oft er sagt. Það var ekki um að villast það voru kúlnagöt á veggjum og stór spegill var þar þar allur sundurskotinn. Okkur var tjáð að nú væri allt í lagi en vikuna á undan hefði komið þarna maður sem taldi sig eiga óuppgerðar sakir við einn gest hótelsins. Hann hefði verið í síðum frakka eins og á bannárunum í Chigago og skyndilega dregið upp vélbyssu (svipaða og hjá íslensku Landhelgisgæslunni) og hafið skothríð. Meðal annars skaut hann  öryggisvörð sem kom þar að. Okkur fannst líka vera ískyggilega dökkur blettur á einum stað á teppinu. Hvað um það. Það fór vel um okkur þarna og andyrið vandist vel.

Hótel Greenleaf

Hótel Greenlefe

Kvöldið fyrir keppnisdag fór ég upp á sjöttu hæð til að kanna skjóðuþyngdina í vigtunarherberginu. Ég heyrði þá kunnuglega smelli hljóma um ganginn. Gekk ég á hljóðið og kom þar inn í nokkuð stóran sal þar sem 30-40 manns voru að tefla á fullu. Ég tók eftir því að allir voru þarna sérlega vel klæddir og hreint ekki eins frjálslega og á kaffihúsamótum hjá Hróknum. Spjöld með nöfnum manna voru á hverju borði og alvarleg stemning lá í loftinu. Þarna var ég þá kominn í Dallas Chess Club sem er þekktur klúbbur í kanalandi. Hann var stofnaður einhverntíman á síðustu öld en meðlimir eru um 300 talsins. Melimur í klúbbnum var eitt sinn Ken Smith sem kenndur er við Smith-Morra bragð sem margir þekkja.Klúbburinn er mjög aktívur og hefur haldið yfir 2000 mót frá árinu 1991!. Árið 1995 setti einn meðlimurinn Smeltzer að nafni heimsmet þegar hann tefldi 2266 skákir á einu ári reiknaðar til stiga!

Ég fylgdist þarna með tveimur síðustu umferðunum í Hraðskákmóti Dallas borgar. Ég sá enga keppendur yfir 2100 stigum en fannt sem þeir á efstu borðunum tefldu svipað og í B-flokki á Akureyri. Ég spígsporaði þarna um í íþróttagalla merktur Iceland á bakinu. Að mótinu loknu kemur einn kaninn til mín og segir: „How do you do, are you coming all the way from the freezing land to watch us play?“
Hann bauð mér síðan að tefla við sig skák en ég lét þess  alveg ógetið að ég væri Skákmeistari Akureyrar frá því fyrr á árinu. Ég var með svart í ítölsku tafli og var smá óstyrkur til að byrja með. Kaninn lék Bc4 og Rg5 fljótlega og drap síðan óvænt á f7 með riddara þótt ég væri búinn að hróka. Hann lét því biskup og riddara fyrir hrók og peð og vann ég skákina fremur létt. Kaninn var samt hress en sagðist hafa getað teflt sóknina betur…

Við tefldum svo aðra skák sem varð til þess að þessi grein er skrifuð. Upp kom Vínartafl og andstæðingur minn lék með ákveðinni sveiflu í þriðja leik Dg5 og drap síðan peð á g2 með drottningunni. Ég svaraði með 5.Bxf7+!. Það kom smá fát á kanann og hann hugsaði sig vel um. Hann sá síðan framhaldið 5.Kxf7? 6.Hg1 Dh3 7.Rg5+ og drottningin fellur. Kaninn var greinilega felmtri sleginn við þetta og hálf missti kónginn til e7. Síðan kom nokkur hasar en skyndilega í erfiðri stöðu lék hann sig í ansi snoturt mát.

Dallas 1984

Hvítt: Kári Elíson
Svart: Saitser

„You are champion!“ hrópaði einhver áhorfandi til mín og fóru menn á fullt við að skoða betur skáklokin og sáu að svarti kóngurinn hefði getað sloppið til bráðabirgða til b5 í stað d6. Að vissu leyti var ég champion því daginn eftir keppti ég á HM og varð í 1. sæti í bekkpressu en í 4. sæti í samanlögðu og setti 4 Íslandsmet. En það er önnur saga.

Facebook athugasemdir