Drottningarfórn í 13. leik!

Hann hét Alexander Dmitrievich Petrov og fæddist í St. Pétursborg 12. febrúar 1794 (sama ár og kaffi var bannað í Svíþjóð með konunglegri tilskipun), lærði að tefla 4ja ára og var orðinn besti skákmaður heimaborgar sinnar kringum tvítugt.

Fáar skákir Petrovs hafa varðveist, en hann vann einvígi gegn öflugum meisturum á borð við Carl Friedrich von Jaenisch. Saman rannsökuðu þeir vörnina sem við Petrov er kennd, 1.e4 e5 2.Rf3 Rf6, sem hinn mikli Kramnik hefur í hávegum.

Fórnarlamb Petrovs í skák dagsins var Alexander Hoffmann (1794-1867) sem á ódauðleika sinn Petrov alfarið að þakka. Skákina tefldu þeir í Varsjá 1844, um svipað leyti og Marx og Engels hittust í París með afdrifaríkum afleiðingum. 19. öldin var blómatímabil ævintýralegrar taflmennsku; baunateljarar efnishyggjunnar höfðu ekki enn litið heimsins ljós, leikgleðin var allsráðandi með tilheyrandi fórnum og fléttum.

Hér lætur Petrov sig ekki muna um að fórna drottningu í 13. leik og klossmátar hvíta kónginn sjö leikjum síðar. Ódauðlega skákin hans Petrovs, gjörið svo vel!

Facebook athugasemdir