Dettmann-bræðrum slátrað í Dresden

HM-Oldunga_002_dresden_2016Þýski Dettmann-skákklúbburinn hlaut virðulega útför í boði Gullaldarliðs Íslands í 1. umferð HM skákliða, 50 ára og eldri, í Dresden nú á sunnudag. Íslensku stórmeistararnir unnu allir örugga sigra, enda mikill stigamunur á liðunum. Meðalstig íslenska liðsins voru 2489 en 1971 stig hjá Dettmann-klúbbnum.

Lið Dettmann skipa bræðurnir Gerd, Uwe og Jürgen en mágur þeirra Armin Waschk teflir á 1. borði. Þeir voru engin fyrirstaða fyrir Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Jón L. Árnason og Friðrik Ólafsson. Andstæðingur Friðriks þráaðist lengi við í tapaðri stöðu og eftir skákina kom í ljós að hann hafði einsett sér að tóra í 40 leiki!

HM-Oldunga_003_dresden_2016

HM-Oldunga_004_dresden_2016

John Nunn

John Nunn

Fimmtíu og níu lið taka þátt í mótinu og eru nokkur í algjörum sérflokki. Íslenska liðið er stigahæst en næst kemur enska liðið sem skipað er stórmeisturunum Nunn, Speelman, Hebden og Arkell.

Yusupov

Arthur Jusupov

Þýska liðið Emanul-Lasker Gesellschaft skartar þremur stórmeirunum, með goðsögnina Arthur Jusupov á efsta borði. Annar kunnur kappi, Rafael Vaganian, fer fyrir sterkri sveit Armena, og má búast við að þessi lið verði helstu keppinautar Gullaldarliðsins á mótinu.

Í 2. umferð, sem fram fer á mánudag, mæta okkar menn þýska liðinu SV Eiche Reichenbrand sem ekki státar af neinni stórstjörnu enda meðalstig aðeins í kringum 2000. Íslenskir skákáhugamenn munu því vænta annars stórsigurs. Ekkert er þó gefið, eins og sást í 1. umferðinni þegar Þjóðverjinn Bernd Salweski (2004 stig) gerði jafntefli við armenska stórmeistarann Karen Movsziszian (2488).

HM-Dresden-2016-kvodganga

Lið Íslands í 2. umferð verður skipað Helga Ólafssyni, Margeiri Péturssyni, Jóni L. Árnasyni og Friðriki Ólafssyni, en Jóhann Hjartarson hvílir.

Halldór Grétar Einarsson liðstjóri Gullaldarliðsins segir að góður andi sé í hópnum og létt yfir meisturunum. Þátttaka Friðriks veki óskipta athygli og ljóst að hann njóti mikillar virðingar á meðal keppenda og mótshaldara. Friðrik, sem var forseti FIDE 1978-1982, var kjörinn formaður formaður áfrýjunarnefndar mótsins með lófaklappi.

Skákir 1. umferðar

Myndagallerí

Facebook athugasemdir