Dagur vináttunnar í Ittoqqortoormiit. 

Hróksliðar enduðu skákveisluna á degi vináttunnar, Grænlands og Íslands, á 72. breiddargráðu með fjöltefli við heimamenn. Rúmlega 50 manns mættu í blíðskaparveðri í grunnskóla þorpsins sem í ár, eins og fyrri ár, hefur verið helsta bækistöð skáktrúboðsins. 
Jón Birgir Einarsson tefldi fyrri hluta fjölteflisins og tefldi vasklega framan af. Eftir rúman klukkutíma fóru þó að sjást örlítil þreytumerki og upp komu helst til vafasamar stöður. Skákmeistara leiðangursins, Róbert Lagerman, var því skipt inn á í snatri og bjargaði hann því sem bjarga varð.
Fjölmörg jafntefli litu þó dagsins ljós og tveir heimamenn báru sigur úr býtum. Vandlegur undirbúningur lakari skákmanns leiðangursins virðist hafa skilað sínu og tæmdist því verðlaunaborðið hratt og örugglega, enda fengu allir verðlaun sem náðu jafntefli eða sigri.
Á morgun munu Hróksliðar heimsækja leikskóla þorpsins og færa börnunum þar skáksett og halda örstuttan fræðslupistil. Það er aldrei of snemmt að undirbúa framtíðarskákmenn þessa merkilega þorps, Ittoqqortoormiit.
.


Created with flickr slideshow.

Facebook athugasemdir