Caruana leiðir í St. Louis

Hinn smái en knái Fabiano Caruana heldur forystu sinni í Sinqufield Bikarnum sem fram fer í St. Louis í Bandaríkjunum. Caruna hefur nú einn keppenda unnið báðar sína skákir og fer vel af stað eins og hann hefur verið að gera í mótum á þessu ári.

Levon Aronian er einn í öðru sæti með 1,5 vinning en hann bar sigurorð af Veselin Topalov sem byrjar á algjörri magalendingu eftir frábært Ólympíumót.

Hikaru Nakamura og Magnus Carlsen koma svo þar á eftir með 1 vinning hvor. Magnus hefur byrjað á því að fá tvisvar svörtu mennina í upphafsumferðunum og því má búast við því að heimsmeistarinn sæki fljótlega í sig veðrið, hann mætir einmitt Caruana með hvítu síðar í dag, föstudag!

Rennum aðeins yfir hvað gerðist í skákum gærdagsins:

Nakamura-Carlsen

DSC_0651

Nakamura er stigahæsti Bandaríkjamaðurinn og goðsögn þegar kemur að hröðustu skákum sem tefldar eru á netinu.

Flestra augu beindust að þessari viðureign en hér eru á ferðinni tvö af stærstu nöfnunum í skákinni. Magnus þarf ekki að kynna en Nakamura, besti skákmaður Bandaríkjanna, hefur nú verið á topp 10 í heiminium í dágóðan tíma en mestur hefur frami hans verið í hröðum skákum og þá sérstaklega á netinu. Fyrir aðdáendur ,,bullet“ (1-mínútna skákir) þá er Nakamura nánast goðsögn!

Nakamura hefur einnig verið duglegur að komast í fyrirsagnir vegna samskiptamiðla (twitter) og eins í einu viðtali kallaði hann Carlsen viðurnefninu ,,Sauron“ (vísun í Hringadróttins-sögu). Nakamura hélt því svo fram að hann væri helst ógn við krúnu Norðmannsins í nánustu framtíð.

Þrátt fyrir þessi stóru orð hefur Nakamura ekki enn náð að knésetja Magnus í klassískri skák en hefur á meðan tapað um tíu skákum á milli þess sem þeir hafa gert jafntefli.

En að skákinni. Sem fyrr fór Carlsen í sjaldgæft afbrigði og virðist nánast aldrei gefa andstæðingum sínum möguleika á að nota einhverskonar byrjanaundirbúning gegn sér. Í Spænska leiknum beitti Carlsen hinum sjaldgæfa leik 3…g6!?

Naka_Carlsen_1

Carlsen og í sjálfu sér elítan öll hefur meira verið í 3…Rf6 og hinu trausta Berlínar-afbrigði. Vonandi fara menn nú að hvíla það en Caruana hefur verið að gera góða hluti nýlega í að brjóta niður þann alræmda Berlínar-vegg svokallaða.

Í framhaldinu byggðist upp staða sem líklegri væri að sjást úr Kóngsindverskri vörn. Nakamura hafði betri peðastöðu þannig að Carlsen bauð upp á peðsfórn gegn góðum færum á kóngsvæng.

Naka_Carlsen_2

 

Leikur Carlsen, 20…Rf4!? býður upp á peðsfórn eftir 21.fxg6 Hf6 og svartur drepur svo með hrók á g6 og hefur opnar línur og færi. Nakamura hafnaði peðsfórninni og lék 21.f6!?  Í framhaldinu hafði Nakamura líklegast sjónarmun betra tafl svo að Carlsen ákvað að þvinga fram þrátefli þegar færi gafst:

Naka_Carlsen_3

Hér drap Carlsen á g3 í sínum 26. leik og ljóst að eftir 27.hxg3 stekkur svarta drottningin inn á h3 og skákar og í framhaldinu þrátefla þeir þar sem svartur á ekkert betra en Dh3-g3-h3+ o.s.frv.

Nakamura þarf því enn að bíða eftir sinni fyrstu sigurskák gegn Carlsen á alvöru móti!

 

Caruana-Vachier Lagrave

Frakkinn Maxime Vachier-Lagrave hefur líkast til ætlað að koma hinum vel undirbúna Caruana á óvart með Caro-Kann vörn, 1.e4 c6. Eða byrjun fátæka mannsins eins og hún hefur á tíðum verið kölluð. Frakkinn hefur venjulega verið í hinu skarpa Najdorf afbrigði Sikileyarvarnar en að þessu sinni hefur hann viljað forðast undirbúning Ítalans.

Segja má að Frakkinn hafi verið óheppinn því að hann gekk beint inn í undirbúning Caruana sem hann hafði á reiðum höndum fyrir eldri skák gegn Azeranum Mamedyarov. Þá náði hann ekki að beita þessu vopni en Vachier-Lagrave fékk að kenna á því í dag!

Caruana_MVL_1

 

Eftir nýjung í leiknum á undan kom hinn mjög svo skarpi leikur g4!? Nokkrar flækjur koma í kjölfarið og er þessi leikur hugmynd þjálfara hans, Vladimir Chucelov. Tölvurnar segja reyndar að svartur eigi að vera í lagi en án hjálpar tölvuheila er gríðarlega erfitt að tefla svörtu stöðuna og Vachier-Lagrave lék mjög fljótlega af sér og fékk koltapað tafl.

Segja má því að Caruana hafi halað inn þessum punkti á góðum undirbúningi fyrir mótið!

 

Aronian-Topalov

Armeninn viðkunnalegi náði í dag í sitt fyrsta höfuðleður þegar hann skildi Búlgarann eftir með 0 vinninga.

Eftir Chebanenko afbrigði í Slavneskri vörn kom upp furðuleg staða með tvöföldu tvípeði á hrókslínunum fyrir Armenann. Topalov átti hér taktískt skot þar sem hann drap á d4 með biskup og nýtti sér óvaldað ástand hróksins á h1 (rauður) með því að ýta svo peðinu sínu áfram til e3.

Aronian_Topalov

Aronian var þvingaður til að fórna skiptamun fyrir óljósar bætur. Topalov sjálfur er þekktur sóknarskákmaður og e.t.v. vanari að fórna sjálfur. Hann hefði getað teflt örugglega og stutthrókað en tefldi af miklum glæfraskap og langhrókaði þess í stað.

Aronian_Topalov_3Í raun var furðulegt hversu fljótlega staða Topalov hreinlega fuðraði upp og hér eftir d7+ leikur hvítur einfaldlega Bd4 næst og tekur hrókinn á h8 sem verður eftir í skotlínunni.

Topalov hefur ekki verið að ná sér vel á strik í elítumótunum síðustu ár og virðist ekki ætla að gera gott mót núna!

 

Eftir skákir gærdagsins er athyglisvert að skoða topp 10 skákmenn í heiminum. Caruana hefur tekið yfir annað sætið eins og er og athyglisvert að sjá hvort hann nær því eftir mótið!

Stigahæstu skákmenn heims. Carlsen sem fyrr langefstur þrátt fyrir að tapa stigum á Ólympíumótinu og hér í fyrstu umferðunum.

Stigahæstu skákmenn heims. Carlsen sem fyrr langefstur þrátt fyrir að tapa stigum á Ólympíumótinu og hér í fyrstu umferðunum.

 

 

Carlsen fær loks hvítu mennina á morgun. Tekst honum að leggja Caruana að velli?

Carlsen fær loks hvítu mennina á morgun. Tekst honum að leggja Caruana að velli?

Næstu umferðir:

3. umferð – 29. ágúst, 2014
Topalov, Veselin 2772 Nakamura, Hikaru 2787
Vachier-Lagrave, M 2768 Aronian, Levon 2805
Carlsen, Magnus 2877 Caruana, Fabiano 2801
4. umferð – 30. ágúst, 2014
Vachier-Lagrave, M 2768 Nakamura, Hikaru 2787
Carlsen, Magnus 2877 Topalov, Veselin 2772
Caruana, Fabiano 2801 Aronian, Levon 2805

Facebook athugasemdir