Caruana efstur í Baku – Aðeins 12 stigum á eftir Carlsen!

Baku_GrandPrix2014Þessa dagana fer fram fyrsta mótið í Grand Prix seríu FIDE  í Baku í Azerbaijan. Margir af bestu skákmönnum í heimi eru þátttakendur í seríunni en ástæðan er einföld, tvö efstu sætin í mótaröðinni gefa rétt á Áskorendamót FIDE en sigurvegari þess móts fær einmitt rétt til að skora á ríkjandi Heimsmeistara.

Fyrirkomulag mótaraðarinnar er þannig að hver keppandi tekur þátt í þremur mótum og samanlagt skor hans gildir. Athyglisvert er að Fabiano Caruana tók þátt í mótaröðinni þótt hann þyrfti þess í raun og veru ekki. Hann mun eiga rétt í Áskorendamótið sökum stöðu hans á stigalista alþjóðlega skáksambandsins en augljóst er að eftir árangur í undanförnum mótum er Fabiano með „blóð á tönnunum“ eftir hreint ótrúlega sigurgöngu.

Að loknum 6 umferðum er Fabiano í efsta sæti mótsins með 4,5 vinning af 6 mögulegum. Í öðru sæti er hinn ísraelski Boris Gelfand. Í dag lagði Fabiano að vellir Peter Svidler eftir baráttuskák og hefur því unnið þrjár skákir og gert þrjú jafntefli í mótinu.

Mamedyarov og Grischuk eru að eiga slæmt mót með tvær tapskákir hvor og verða að spýta í lófana til að halda sér á lífi í baráttunni um sæti á Áskorendamótinu.  Báðir hafa teflt nokkuð vel undanfarið, Mamedyarov var á 1.borði þegar SOCAR varð Evrópumeistari Taflfélaga nú nýverið og Grischuk hefur verið í þriðja sæti á Heimslistanum eftir gott skrið.  Mikið tímahrak hefur hinsvegar verið að há Grischuk sem þó er ekkert nýtt. Á Grand Prix mótinu er það hinsvegar meira vandamál þar sem engin viðbótartími bætist við eftir hvern leik. Um er að ræða gamaldags tímamörk þar sem klára þarf tilskilin leikjafjölda. Sem dæmi átti hann rétt rúma mínútu á um 12 leiki í dag!  Heyrst hefur að Grischuk ásamt Kjartani Maack og Stefáni Kristjánssyni ætli að stofna Hagsmunasamtök tímahrakssjúklinga, Walter Browne verður svo gerður að heiðursfélaga!

Nakamura, Radjabov og Kazimdzhanov sigla nokkuð lygnan sjó með eina vinningskák en aðrir hafa 50% eða minna.

Julio_Granda

Julio Granda Zuniga var síðast með Caruana „í köðlunum“ en tókst ekki að landa rothögginu

Sigurganga Caruana hefur verið hreint með ólíkindum síðustu mánuði. Síðasta tapskák Caruana var gegn sjálfum Magnus Carlsen 8. ágúst síðastliðin á Ólympíumótinu í Tromsö. Síðan þá hefur kappinn teflt 27 kappskákir og unnið 17 þeirra og gert 10 jafntefli. Hreint ótrúlegt hrina og það sem er hvað ótrúlegast við þetta hjá kappanum er að hann hefur nánast aldrei verið í vandræðum í neinni af þessum skákum. Á Ólympíumótinu þurfti hann að hafa fyrir jafntefli á móti hinum hæfileikaríka skákmanni Julio Granda Zuniga (2663) frá Perú en þess utan hafa skákreiknar ekki náð að finna skákir þar sem óhagræði Caruana fer fræðilega yfir eitt peð eða +1.00 í tölvunum. Það er semsagt hægt að týna til eina skák á þessu tímabili þar sem hann var í einhverju sem hægt væri að kalla vandræði.

Í flestum jafnteflisskákum sínum hefur Caruana verið með annaðhvort betra tafl eða stundum hreinlega misst af vinningi. Þau örfáu slæmu mistök sem Caruana hefur gert eru iðullega í úrvinnslu og aldrei tekst honum að leikja það slæmum leikjum að hann fái verri stöðu eða tapi.

Þessi magnaða sigurganga þýðir að Caruana er nú kominn samkvæmt „lifandi“ stigaútreikningum upp í 2851,3 elóstig á Heimslistanum og er aðeins tæpum 12 elóstigum á eftir Magnus Carlsen. Nú eru fimm umferðir eftir á mótinu í Baku og fræðilega gæti hann náð Carlsen áður en Heimsmeistaraeinvígið hefst.  Takist það ekki í þessu móti þá hefst mót númer tvö á mótaröðinni í Tashkent í Uzbekistan. Þar er Caruana einnig meðal þátttakenda og gæti þar gert aðra atlögu að efsta sæti Heimslistans. Enn og aftur væru um undur og stórmerki að ræða þar sem Carlsen var á tímabili með stjarnfræðilegt forskot sem stigahæsti skákmaður heims.

Við verðum á vaktinni spenntir hér á hrokurinn.is!

Baku2014_6rnds

Facebook athugasemdir