Caruana að endurskrifa sögubækurnar

Ingvar Þór Jóhannesson skrifar.

Menn eru hættir að koma upp orði yfir frammistöðu Fabiano Caruana á Sinquefield mótinu í St. Louis í Bandaríkjunum. Í stuttu máli hafa nú verið tefldar sex umferðir á þessu stigahæsta móti sögunnar og Caruana er með sex vinninga! Hann hefur lagt alla andstæðinga sína að velli!

Skiljanlega eru menn að leita að fordæmi í sögunni og síðasti snillingurinn sem byrjaði mót með 6 af 6 var fyrrverandi heimsmeistarinn Anatoly Karpov árið 1994!

Karpov

Veselin Topalov sem varð FIDE Heimsmeistari (og tefldi síðar sameiningareinvígi) byrjaði sjálfur á ótrúlegan hátt í San Luis árið 2005 með 6.5 vinning af 7. Topalov sjálfur telur frammistöðu Caruana betri nú þar sem andstæðingar hans eru sterkari á meðan Topalov tefldi við Judit Polgar sem var þá í lélegu formi og Rustam Kazimdzhanov sem var þá undir 2700 stigum þó sterkur skákmaður sé hann.

Árangur Caruana er það góður að hann er í raun ekki mælanlegur! Þegar skákmenn hafa fullt hús er ekki hægt að áætla svokallaðan ‘rating performance’. Sú tala verður aðeins nákvæm þegar skákmaður hefur tapað allavega niður hálfum vinningi, annars er frammistaðan í raun ómælanleg.

Nakamura-Caruana (5.umferð)

Í fimmtu umferð á sunnudaginn lá Hikaru Nakamura í valnum. Nakamura var greinilega (eins og Carlsen!) hræddur við nánast óskeikulan byrjanaundirbúning Caruana og fór strax ótroðnar slóðir í fjórða leik. Með 4.Rbd2

Nakamura_Caruana

Algengast er 4.Rc3 en Nakamura ákvað að vaða ekki í neinar teóríur að þessu sinni. Planið hans líkt og hjá Carlsen fyrr í mótinu var að fá stöðu og tefla hana og lenda ekki í neinum undirbúningi. Segja má að það hafi í raun tekist, Nakamura hafði ekki mikið en þó biskupaparið og í raun hefði ekki mikið átt að vera í gangi.

Nakamura_Caruana_2

Caruana var á því að taflið hafi byrjað að snúast honum í hag skömmu síðar þegar Nakamura gaf frá sér biskupaparið, lokaði nánast inni hinn biskup sinn og gaf svörtum vald á full mikið af hvítum reitum á borðinu.

Nakamura_Caruana_3

Caruana stillti upp hrókum sínum á c-línunni og notfærði sér veikan c4 reitinn. Í kjölfarið féll peðið á b5 og svartur því í raun í vinningsstöðu.

Nakamura_Caruana_4

Úrvinnsla Caruana gekk nokkuð snuðrulaust fyrir sig en þó má segja að hann hafi gert einu mistök sín það sem af er móti þegar hann missti af vinnings taktík.

Nakamura_Caruana_5

Hér hefði hann getað klárað dæmið með 44…Bh4!! Það kom ekki að sök og vinningurinn sigldi örugglega í hús. 44…Bh4 byggir á því að hvítur getur ekki tekið biskupinn þar sem hvíta drottningin myndi ekki sleppa undan svörtu hrókunum sem leppa drottninguna undir eins!

 

Aronian-Carlsen (5.umferð)

Heimsmeistarinn fékk loksins plús í fimmtu umferð þegar hann bar sigurorð af Aronian í týpískri Carlsen skák.

Heimsmeistarinn vann loks sinn fyrsta sigur í fimmtu umferð

Heimsmeistarinn vann loks sinn fyrsta sigur í fimmtu umferð

Staðan var snemma í jafnvægi og líklega aðeins betri á Aronian. Carlsen tefldi af öryggi og nýtti sér mistök Armenans og fékk aðeins betra endatafl. Það virtist erfitt að vinna úr svörtu stöðunni en Carlsen komst í hróksendatafl peði yfir.

Líklegast hefði Aronian átt að getað haldið jafnteflinu en það virðist vera vörumerki Carlsen að láta menn verjast lengi og nákvæmlega og það virðist einfaldlega vera staðreynd að fæstir eru í stakk búnir til að standast þá pressu.

Lykilleikurinn var e.t.v. 53…g5!? sem kemur í veg fyrir að hvíti kóngurinn sæki í mótspil á kóngsvængnum.

Aronian_Carlsen

Staðan eftir fimm umferðir var því ótrúleg. Caruana með 2,5 vinning í forskot á næstu menn en þar sátu Carlsen og Topalov með 50% skor. Vel gert hjá Topalov sem byrjaði á tveimur tapskákum.

 

Caruana-Topalov (6.umferð)

Caruana hélt uppteknum hætti í 6.umferðinni. Í raun var þessi viðureign athyglisverð því Topalov hefði átt að vera mikið í mun að stöðva framgöngu Caruana svo að árangur hans í San Luis stæði betur sögulega.

Það reyndist vera tilfellið. Topalov lagði mikið á stöðu sína og spennti bogann hátt. Því miður fyrir hann lenti hann eins og svo margir í stöðu sem Caruana hafði undirbúið fyrir mótið. Auk augljósra hæfileika virðist Caruana vera mikill vinnuhestur og hlutirnir eru að falla einstaklega vel fyrir hann í þessu móti.

Caruana_Topalov

Eins og sjá má er hvíta staðan mjög örugg. Nánast enga peðaveikleika er að finna á meðan svartur er fastur með kóng sinn á miðborðinu og með furðulega peðastöðu. Staðan hangir einhvern veginn saman en það er alltaf erfiðara að vera með svart í svona stöðum.

Á endaum gaf Topalov færi á sér og sem fyrr í mótinu missti Caruana ekki af sínum sénsum.

Caruana_Topalov_2

Hér drap hann á e6 og svarta staðan gjörsamlega hrundi í kjölfarið og Topalov kom engum vörnum við.

Þar sem öðrum skákum lauk með jafntefi er Caruana ENN að auka við forskot sitt í mótinu og hefur hann nú heila þrjá vinninga í forskot á heimsmeistarann Magnus Carlsen sem er einn í öðru sæti með 50% árangur!

Þetta er svo magnað að menn eru að reyna að finna upp lýsingaorð en það er bara ekki hægt. Flestir hefðu fyrir móti tippað á sigur Carlsens en ef einhver annar var að fara að vinna mótið þá hefði ekki hvarflað að nokkrum manni að það yrði með yfirburðum, hvað þá þessum yfirburðum!

Caruana er nú kominn með um 2830 skákstig á lifandi stigalistum og er búinn að stimpla sig inn sem verðugur keppinautur um krúnuna á komandi árum. Eiginlega synd að við skulum ekki vera að fá einvígi á milli Carlsen og Caruana nú síðar á árinu…hver veit þó ef að einvígi Carlsen og Anand fellur niður sökum deilna sem við höfum greint vel frá hér á Hrókssíðunni.

 

Hér eru næstu umferðir:

7. umferð – 3. september, 2014
Carlsen, Magnus 2877 Nakamura, Hikaru 2787
Vachier-Lagrave, M 2768 Caruana, Fabiano 2801
Topalov, Veselin 2772 Aronian, Levon 2805
8.umferð – 4.september, 2014
Nakamura, Hikaru 2787 Topalov, Veselin 2772
Aronian, Levon 2805 Vachier-Lagrave, M 2768
Caruana, Fabiano 2801 Carlsen, Magnus 2877

 

 

Umferðir hefjast 19:00 að íslenskum tíma og hægt er að fylgjast með beinum útsendingum víða. Þeir sem hafa aðgang að ICC geta fylgst með þar. Þeir sem hafa ekki slíkan aðgang velja gjarnan vefsíður á borð við ChessBomb þar sem hægt er að sjá skákirnar ásamt tölvustúderingum og stundum skýringum. Loks bendum við á Chess24 þar sem hægt er að sjá skákirnar einnig með tölvustúderingum ásamt flottum beinum útsendingum úr stúdíó í St. Louis með skýringum meistara Yasser Seirawan auk þess sem Jennifer Shahade og Maurice Ashley hjálpa til.

 

Facebook athugasemdir