Carlsen skrifaði undir – Mætir Anand í Sochi í nóvember!

Mikið hefur gengið á í tengslum við hugsanlegt heimsmeistaraeinvígi Magnúsar Carlsen og Viswanathan Anand sem fara á fram í borginni Sochi í Krasnordar í Rússlandi nú í nóvember. Aldrei hefur verið efast um vilja Magnúsar til að verja titilinn og í raun er afar líklegt að málið hefði verið frágengið fyrir löngu síðan ef mótsstaðurinn væri ekki jafn umdeildur og raun ber vitni. Rifjum upp helstu ástæður:

  • Engin umsókn barst frá væntanlegum styrtkaraðila um að halda mótið.
  • Kirsian forseti FIDE ákvað einhliða að einvígið skyldi haldið í Ólympíubænum Sochi í Rússlandi.
  • Fyrirtækið AGON keypti réttinn að einvíginu: Engin veit hver á fyrirtækið – FIDE neitar að upplýsa um eignarhaldið.
  • Alexander Tkachev, forseti í Krasnordar leggur fram verðlaunaféð – Hann er á bannlista ESB og Noregs.
  • Hið pólitíska ástand í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu versnar með hverjum deginum sem líður.
  • Nýverið kynnti ESB að hert yrði á refsiaðgerðum gegn Rússum vegna ástandsins.

Allt þetta þýðir að Magnús þurfti að fullvissa sig um að hann gæti teflt í Rússlandi, m.ö.o. að það væri ekki brot á viðskiptaþvingunum ESB og Noregs gegn Rússum. Jafnframt þurfti hann að fullvissa sig um að hann gæti tekið við fjármunum úr hendi Alexanders Tkachevs forseta Krasnordar, en sá er sem einstaklingur á bannlista ESB — refsiaðgerðir gegn einstaklingum eru mun umfangsmeiri en hinar almennu aðgerðir sem beinast gegn Rússneska ríkinu. Þannig eru allar eignir forsetans frystar, hvar sem þær kunna að finnast í Evrópu – Allir samningar sem gerðir eru við hann eru ógildir. Þó ber að hafa í huga að núverandi viðskiptaþvinganir eru aðeins leiðbeinandi tilmæli — það er ekki refsivert að brjóta gegn þeim, í öllu falli ekki enn sem komið er.

Að öllu þessu aðgættu þurfti Carlsen einnig að gera upp við sig hvort hann telur viðeigandi að tefla í Rússlandi í núverandi ástandi. Talið er afar líklegt að ákvörðun þar að lútandi geti valdið álitshnekki í hinum vestræna heimi, sem er einmitt sá markaður sem Carlsen vill frekar tilheyra.

Norskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um mál Carlsens og FIDE. Fram hefur komið að Espen Agdestein, umboðsmaður Magnúsar, hefur verið í sambandi við norska utanríkisráðuneytið og leitað ráðgjafar um ofangreind álitaefni. VG.no birtir viðtal við Rune Duty, fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins í dag þar sem staðfest er að teymi heimsmeistarans hefur verið í sambandi, hann segir m.a.:

Umboðsmaður Magnúsar hefur verið í sambandi við ráðuneytið og óskað ráðgjafar. Við [utanríkisráðuneytið] höfum sagt að við getum hvorki ráðlagt þeim eða gefið út boð og bönn í tengslum við málið. Það sem við gerðum var að útskýra staðreyndir málsins varðandi refsiaðgerðirnar gegn Rússum og hver aðkoma Noregs er að þeim. Við útskýrðum einnig hver utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er í málefnum Rússlands. Ekki hefur verið lagt bann við íþróttaviðburðum í Rússlandi. Þátttaka Magnúsar er undir honum komin og ráðuneytið hyggst ekki hafa frekari afskipti af málinu.

FIDE hafði gefið Carlsen frest til 7. september til þess að taka ákvörðun, ellegar tæki Sergey Karjakin sæti hans í einvíginu.

Í dag barst svar frá heimsmeistarnum. Hann undirritaði samninginn og mætir því Anand í Sochi í nóvember!

Facebook athugasemdir