Carlsen getur grætt milljarða með því að segja skilið við Kirsan og FIDE

Tómas Veigar Sigurðarson skrifar.

Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um þá tvísýnu stöðu sem nú er innan FIDE, alþjóðaskáksambandsins. Carlsen heimsmeistari hefur frest til 7. september til að skrifa undir samning um heimsmeistaraeinvígið við Anand, sem Kirsan Ilymzhinov ákvað einhliða að færi fram í Rússlandi. Það getur haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir Carlsen að tefla í Rússlandi — en Kirsan hótar að svipta hann titlinum ef hann mætir ekki til leiks í ríki Pútíns. Miklir — mjög miklir — peningar eru í húfi.

Funansov management2

Verðlaunapotturinn í Rússlandi er smotterí — miðað við það sem Carlsen gæti haft upp úr því að segja skilið við FIDE.

Carlsen hafði frest til 29. ágúst til að skrifa undir, en fram hefur komið að Emil Sutovsky forseti Félags atvinnuskákmanna hringdi í Kirsan Ilyumzhinov forseta FIDE og kríaði út framlengingu.  Norski fjölmiðillinn VG.no hefur eftir Espen Agdestein, umboðsmanni Carlsens að þessi  frestur breyti í raun engu.

Carlsen á að svara 7. september, eða sama dag og Sinquenfield Bikarmótinu lýkur í St. Louis í Bandaríkjunum, sem gefur heimsmeistaranum í raun ekkert tóm til umhugsunar, en hann hyggst ekki taka ákvarðanir eða ræða málið yfir höfuð á meðan á mótinu stendur.

Þá segir Espen Agdestein að hann hafi farið fram á frest til 17. september svo Carlsen fái 10 daga umhugsunartíma að móti loknu. Augljóst er að þeir félagar ætla ekki að láta FIDE og Kirsan knýja fram ákvörðun með hótunum, slíkt mun aðeins leiða til þess að endanlega sýður upp úr. Staðan er því óbreytt.

Milljarðar handan við hornið?

Dagbladed.no bendir í dag á að undirriti Magnús ekki samninga um einvígið hefur sú ákvörðun þær augljósu afleiðingar að hann verður af 3,5 til 5 milljónum NRK, sem umreiknast í 66 milljónir ISK hið minnsta og allt að 94 milljónir ISK, eftir því hver lokaniðurstaðan verður varðandi heildarverðlaunafé einvígisins.

Sú upphæð virðist alls ekki liggja endanlega fyrir, enda flest á huldu sem snýr að einvíginu. Þá hafa ýmsir styrktarsamningar sem Carlsen hefur gert í eigin nafni ekki verið taldir, en í þeim flestum er ákvæði um bónusa verði hann aftur heimsmeistari. Ákvörðun heimsmeistarans snýst því — meðal annars — um mikla peninga.

Hvers vegna skrifar hann þá ekki bara undir?

cs072coke-lg

Alþjóðleg stórfyrirtæki vilja ekki láta bendla sig við Kirsan eða Pútín. En allir elska Carlsen.

Sérfræðingur Dagbladed.no bendir á að fari svo að Carlsen segi sig úr lögum við FIDE og stofni eigin samtök, hugsanlega með fulltingi margra af sterkustu skákmönnum heims, þá séu þessar upphæðir sem nefndar voru aðeins smáaurar. Hann telur að ýmis stórfyrirtæki, t.d. Coca-Cola myndu aldrei leggja einvíginu eða keppendum til styrktarfjármuni fari svo að einvígið verði í Sochi.

Augljóst er að Bandaríkin og hinn vestræni heimur líta ástandið í Úkraínu mjög alvarlegum augum og hafa sjálf lagt umfangsmiklar viðskiptaþvinganir á Rússland og fyrirtæki og einstaklinga í landinu. Það myndi því alls ekki þjóna hagsmunum stórfyrirtækja að koma að styrkveitinum í núverandi ástandi og ekki á meðan forsvarsmenn FIDE eru jafn nátengdir Pútín og raunin er.

Hugsanlega er forysta FIDE einmitt ástæða þess áhugaleysis vestrænna fyrirtækja sem kom skýrt í ljós þegar auglýst var eftir móthaldara í febrúar. Ekkert þeirra kærir sig um að eiga samskipti við Kirsian foreta FIDE og þar með Pútín sem leikur sér í Evrópsku-valdatafli undanfarna mánuði. Samstarf við þessa menn er stórhættulegt orðspori vestrænna fyrirtækja.

Segi heimsmeistarinn sig úr lögum við FIDE og þar með Kirsan, Pútín og félaga, og stofnar vestrænt skáksamband, þá er allt eins líklegt að flóðgáttir fjármuna opnist og fyrirtæki munu slást um að halda einvígið. Því má ekki gleyma að Magnús Carlsen nýtur gríðarlegra vinsælda í hinum vestræna heimi. Þar er hann óumdeildur meistari sem hefur afar sterka ímynd sem hreinræktaður íþróttamaður og undrabarn; Mozart skákarinnar og óumdeild fyrirmynd. Þeir fjármunir sem gætu tapast við að tefla ekki einvígið eru smáaurar í samanburði við það sem hugsanlega er handan við hornið.

Anand klár í slaginn í Sochi

Vishwanathan-anand-family (1)

Á leið til Rússlands með bros á vör. Anand og Aruna kona hans, sem jafnframt er umboðsmaður skákmeistarans.

Lítið hefur heyrst frá Anand í öllu fjaðrafokinu. Eiginkona hans og umboðsmaður, Aruna, segir í viðtali viðThe Times of India:

„Það er ekki okkar að hafa áhyggjur af vandamálum Magnúsar. Málið er leyst af hálfu Anands og FIDE. Hvað Anand snertir þá er ekkert vandamál á ferðinni, hann er sáttur við mótsstaðinn og tímasetningar. Hann hefur góða reynslu af því að tefla í Rússlandi og ber fullt traust til mótshaldaranna. Vissulega er verðlaunaféð minna í ár en í fyrra, við látum það ekki á okkur fá. Samningurinn hefur verið undirritaður og Anand er klár í slaginn.“

Þess má geta að Indland tekur engan þátt í viðskiptaþvingunum eða öðrum refsiaðgerðum gegn Rússum; þvert á móti eru Indverjar bandamenn Rússa og mótmæla refsiaðgerðum vestrænna ríkja.

Á þessari stundu er afar ólíklegt — nánast útilokað — að Anand og Carlsen setjist að tafli í Rússlandi í nóvember. Stóra spurningin er: Klofnar FIDE?

Facebook athugasemdir