Vigdís Finnbogadóttir lék fyrsta leikinn fyrir Friðrik.

Bragi og Hannes á toppnum eftir fyrri dag Afmælismóts Hróksins í Ráðhúsi Reykjavíkur

Hannes Hlífar. Efstur ásamt Braga eftir fyrri hálfleik, með 4 vinninga af fjórum mögulegum.

Stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson og Hannes Stefánsson eru efstir og jafnir á Afmælismóti Hróksins í Ráðhúsi Reykjavíkur með fjóra vinninga eftir 4 umferðir. Þeir mætast einmitt í 5. umferð, sem hefst í Ráðhúsinu á laugardag klukkan 13. Næstir koma Þröstur Þórhallsson og Jón Viktor Gunnarsson með 3,5 vinning, og í 5.-10. sæti eru hinn ungi Dagur Andri Friðgeirsson, heiðursgestur mótsins Regina Pokorna, Ingvar Þór Jóhannesson, Dagur Ragnarsson, Guðmundur Kjartansson og  Helgi Ólafsson með 3 vinninga. Alls voru 45 keppendur skráðir til leiks, þar af kringum tuttugu titilhafar.

Hrafn Jökulsson, sem verið hefur forseti Hróksins frá upphafi árið 1998, bauð gesti og keppendur velkomna, og sagði að síðustu 20 ár hefðu verið ævintýri líkust. Hrókurinn hefur á þessum tíma staðið fyrir þúsundum skákviðburða, m.a. heimsótt alla grunnskóla á Íslandi og öll sveitarfélög, auk þess að vinna að góðgerðarmálum með samtökum á borð við Fatimusjóðinn, UNICEF, Rauða krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Barnaheill og SOS-barnaþorp. Þá hafa Hróksmenn staðið fyrir víðtæku landnámi skákarinnar á Grænlandi, og beitt sér mjög fyrir auknum samskiptum nágrannaþjóðanna í norðri.

Regina Pokorna, heiðursgestur mótsins, og Bragi Þorfinnsson.

Að lokinni ræðu Hrafns söng grænlenskur barnahópur tvö lög, og er óhætt að segja að þau hafi brætt allra hjörtu. Börnin eru á Íslandi á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi, og hafa Hróksliðar stutt þetta verkefni frá upphafi. Þetta er þrettánda árið í röð sem sem 11 ára börnum frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands, er boðið hingað á vegum Kalak, með dyggum stuðningi fjölmargra fyrirtækja, einstaklinga, Kópavogsbæjar og hins opinbera.

Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar flutti setningarávarp mótsins.

Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar flutti setningarávarp mótsins, og sagði að Hrókurinn væri ekkert venjulegt skákfélag. Það

starfaði svo sannarlega í anda einkunnarorðanna ,,Við erum ein fjölskylda“ og sýndi það í verki, jafnt á Íslandi sem Grænlandi. Dóra Björt að kjörorð Hróksins hefðu víðtæka skírskotun, eins og glögglega kæmi fram í því að á efsta borði í 1. umferð mættust hin 11 ára gamla Batel Goitom Haile, ein efnilegasta skákstúlka landsins, og goðsögnin Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga, heiðursborgari Reykvíkinga og fv. forseti Alþjóða skáksambandsins.

Katrín Jakobsdóttir leikur fyrsta leikinn á mótinu fyrir Batel. Drottningarpeðinu að sjálfsögðu sveiflað fram.

Það var svo Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem lék fyrsta leikinn fyrir Batel og Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands lék fyrsta leikinn fyrir Friðrik. Skák þeirra  Batelar og Friðriks var æsispennandi og lauk með jafntefli. Þetta voru ein af fjölmörgum óvæntum úrslitum í Ráðhúsinu á föstudag og má vænta þess að fjörið verði ekki minna á laugardag.

Staðan á mótinu eftir fjórar umferðir: http://chess-results.com/tnr376495.aspx?lan=1&art=1&rd=4&fed=ISL&turdet=YES

 

 

Facebook athugasemdir