Bilbao er skákhöfuðborg heimsins: Sjöunda Ofurmeistaramótið hefst á morgun.

Þrítugasta Evrópukeppni Taflfélaga og sjöunda Ofurmeistaramótið (Grand Slam) fara fram í borginni Bilbao á Spáni 14. – 20. september.

Óhætt er að segja að Bilbao sé þar með Skákhöfuðborg heimsins, enda koma þar saman nærri allir úr hópi sterkustu skákmanna heims.

Þeirra á meðal er heimsmeistarakandítatinn Viswanathan Anand sem ætlar sér greinilega að tálga snerpuna fyrir komandi einvígi við Magnus Carlsen. Þeir félagarnir mættust einnig í fyrra, en fyrir það einvígi tók Anand sér fimm mánaða hlé frá skákmótum, sem skilaði sér kannski ekki sérstaklega í einvíginu; hann sparar því hvergi í undirbúningi í þetta skiptið.

Skákveislan sem Bilbaoborg býður uppá er vægast sagt konfekt – 9 af 10 stigahæstu skákmönnum heims eru meðal þátttakenda ef mótin eru lögð saman. Þeir eru Fabiano Caruana #2, Levon Aronian #3 Alexander Grischuk #4 Veselin Topalov #5, Viswanathan Anand #6, Sergey Karjakin #7, Hikaru Nakamura #8, Vachier-Lagrave #9 og Mamedyarov #10. Aðeins vantar Magnus Carlsen sem er enn lang stigahæstur, en hann þvertók fyrir að taka þátt vegna undirbúnings fyrir einvígið við Anand.

Keppendur í Bilbao Ofurmeistaramótinu eru:

20140912_MG_1495Viswanathan Anand, Ruslan Ponomariov, Levon Aronian og besti skákmaður Spánverja Paco Vallejo.

Tefld verður tvöföld umferð og umhugsunartíminn er 90 mínútur á fyrstu 40 leikina, eftir það bætast við 60 mínútur og 10 sekúndna viðbótartími á hvern leik. Óheimilt er að semja jafntefli nema að fengnu leyfi skákstjóra.

Gefin eru þrjú stig fyrir sigur og eitt stig fyrir jafntefli.

Verði tveir efstir og jafnir skulu þeir tefla hraðskák um sigurinn. Þá skal tefla tvær hraðskákir, eina með hvorum lit, þar sem báðir hafa fjórar mínútur að viðbættum 3 sekúndum á leik – dregið verður um liti. Dugi það ekki til verður tefld svonefnd Armageddon  skák þar sem hvítur hefur 5 mínútur en svartur fjórar; verði jafntefli vinnur svartur. Dregið verður um liti.

Fyrri Ofurmeistarar

2008 Vaselin Topalov

2009 Levon Aronian

2010 Vladimir Kramnik

2011 Magnus Carlsen

2012 Magnus Carlsen

2013 Levon Aronian

2014 ?

Facebook athugasemdir